Hópknús, ekki ósvipað og hjá Stubbunum. Sól heimsækir hér Tótu sína úti í haga og lambhrútarnir knúsa þær einnig. Ljósm. adm.

Einstakt samband heimasætunnar og ærinnar Tótu

Sól Jónsdóttir heimasæta á bænum Bergi, rétt utan við Grundarfjörð, hefur alist upp stóran hluta ævi sinnar í nánu samneyti við kindina Tótu. Sól er fædd árið 2009 og fyrstu mánuði ævi sinnar svaf hún í barnavagni inni í fjárhúsunum á meðan foreldrarnir sinntu bústörfunum. „Stundum þegar hún vaknaði var hún að hjala við rollurnar þegar við komum,“ segir móðir Sólar í samtali við Skessuhorn. Sól var svo þriggja ára þegar að heimalningurinn Tóta varð hluti af hennar lífi.

Lambið varð viðskila við móður sína á sínu fyrsta ári vorið 2012. Sól gaf henni nafnið Tóta og urðu þær bestu vinkonur upp frá því. Anna Dóra Markúsdóttir, móðir Sólar, segir að þær hafi verið mikið saman fyrsta árið. „Lambið elti hana út um allt og var nánast alltaf við útidyrahurðina hjá okkur þegar Sól var inni. Ég hafði ekki undan að hreinsa lambaskít frá útidyrahurðinni,“ rifjar Anna Dóra upp og brosir. „Tóta fékk meira að segja að koma með mér upp í stofu að horfa á teiknimyndir í sófanum,“ segir Sól, en móðir hennar skýtur því inní að þá hafi hún klárlega ekki verið heima. Eitt sinn fékk Tóta að fara með í leikskólann í Grundarfirði og vakti þá mikla lukku á meðal krakkanna.

Í Skessuhorni sem kom út í dag er nánar sagt frá þessu kærleiksríka og fallega sambandi Sólar og Tótu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira