
Eitt nýtt smit á Vesturlandi
Á Vesturlandi eru 23 í einangrun með Covid-19 sjúkdóminn, samkvæmt nýjum tölum sem Lögreglan á Vesturlandi birti nú rétt í þessu. Hefur smituðum fjölgað um einn frá því sólarhringinn á undan, þegar 22 voru í einangrun. Nýja smitið greindist á starfssvæði heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi.
Flestir eru í einangrun í Stykkishólmi, eða 13 manns. Níu eru í einangrun á Akranesi og einn í Borgarnesi.
Alls eru 53 í sóttkví í landshlutanum, þar af flestir á Akranesi eða 27. Í Stykkishólmi eru 17 í sóttkví, sjö í Borgarnesi, einn í Grundarfirði og einn í Ólafsvík.