Klemens Sigurðsson skipstjóri á Ingu P SH með fyrsta aflann eftir að humarinn fannst. Ljósm. af.

Gekk vonum framar eftir að gildrurnar voru færðar

„Við fengum humar í flestar gildrur, í nokkrum var ekkert en afli dagsins var í heildina langt framar vonum. Við fengum allavega staðfest að það er talsvert af humri á þessum slóðum en auðvitað er óvarlegt að draga víðtækar ályktanir af því sem kom upp í dag. Við freistum gæfunnar víðar á næstu vikum til að átta okkur á því hvar humar er að finna og í miklum mæli,“ segir Klemens Sigurðsson, skipstjóri á Ingu P SH-423, sem stundar nú í tilraunaskyni gildruveiðar á humri á Breiðafirði á vegum Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Í fyrri viku voru um 70 gildrur lagðar lagðar norður af Bárðargrunni með 15 faðma millibili og beitt var með síld af Færeyjamiðum. Þegar gildranna var vitjað var þar ekkert að finna nema slatta af beitukóngi og nokkrar rækjur. Næst var gildrunum sökkt í sjó vestur af Öndverðarnesi, vestasta tanga Snæfellsness. Þar fékkst afli dagsins á um hundrað faðma dýpi eftir að gildrurnar höfðu legið á botninum í tvær nætur. Aflinn var góður millihumar og upp úr en nær ekkert af smáum humri.

„Við þreifum okkur áfram og lærum smám saman. Það er gaman að taka þátt í svona tilraunastarfsemi og æfingar við að leggja gildrur og draga þær. Eftir einn mánuð eða svo höfum við náð betri tökum á hlutunum og græjað aðstöðuna um borð,” sagði Klemens og bætti við: ”Við höfum orðið varir við humar á Breiðafirði síðustu tíu til tólf árin og í frekar í vaxandi mæli en hitt, finnst mér. Á áratugum áður veit ég ekki til þess að humars hafi orðið vart þarna. Skýringin á breytingunni getur verið hlýsjávarskeið undanfarinn áratug eða svo. Nú virðist sjórinn vera að kólna á ný, hvaða áhrif sem það sem kann að hafa.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, forstjóri VSV, segir í samtali við Skessuhorn að þessi afli sé vonum framar og gefi vonir um að þessar tilraunaveiðar muni ganga vel. Hann segir að fyrirhugað sé að flytja humarinn á erlendan markað. ”Við munum taka allan humarinn sem veiddist í dag og stærðarmæla hann og mæla auk þess að athuga með gæðin. En þetta lofar góður,” sagði Binni í Vinnslustöðinni í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir