„Ég hlakka til að vinna áfram í Krónunni“

Fyrr í sumar var Antoni Kristjánssyni starfsmanni Krónunnar á Akranesi sagt upp störfum og hefur að undanförnu unnið uppsagnarfrest sinn. Anton hefur starfað í Krónunni frá opnun verslunarinnar og sýnt mikla iðjusemi, jákvæðni og þjónustulund. Vakin var athygli á uppsögn hans á facebooksíðunni Ég er íbúi á Akranesi og voru fjölmargir sem í kjölfarið lýstu einörðum stuðningi við að horfið yrði frá uppsögn hans. Létu sumir jafnvel í veðri vaka að þeir myndu færa viðskipti sín annað myndi uppsögnin ekki verða dregin til baka. Létu þess einnig getið að skilaboð yrðu send hlutaðeigandi forsvarmönnum Krónunnar. Viðbrögð komu þaðan skömmu síðar. Anna Bjarnadóttir, móðir Antons tilkynnti fyrir hans hönd, að Anton myndi starfa þar áfram og sem fyrr taka vel á móti viðskiptavinum Krónunnar á Akranesi. Sagði hún Anton hrærðan yfir þeim jákvæðu viðstökum sem hann fékk.

Í hádeginu í dag var Anton við afgreiðslu í Krónunni. Hann tjáði blaðamanni Skessuhorns að hann væri afar þakklátur og hrærður yfir þeim jákvæðu straumum sem hann hefði fundið frá fólki. „Það er svo margt frábært fólk hérna á Akranesi. Ég er afskaplega þakklátur fyrir stuðninginn og hlakka til að vinna áfram í Krónunni,“ sagði Anton Kristjánsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir