Tvö ný smit í Stykkishólmi í gær

Á landsvísu eru nú 455 einstaklingar í einangrun með sóttkví og þar af fjórir á sjúkrahúsi. 1895 eru í sóttkví. Tvö ný smit greindist í gær í Stykkishólmi. Hvorugur einstaklinganna var í sóttkví. Nú eru því 13 skráðir í einangrun í Stykkishólmi með greind COVID-19 smit, þar af eru tveir einstaklingar sem taka út einangrun í Reykjavík. Átján eru í sóttkví í Stykkishólmi en smitrakningateymi almannavarna er að störfum og vinnur að því að hafa samband við þá einstaklinga sem þurfa að sæta sóttkví. Að sögn Jakobs Björgvins Jakobssonar bæjarstjóra eru ekki teljandi veikindi hjá þeim einstaklingum sem eru með sjúkdóminn í Stykkishólmi, eins og staðan er í dag.

Samkvæmt Covid.is er nú 21 einstaklingur á Vesturlandi í einangrun og 74 í sóttkví. Frá því á föstudag hefur því staðfestum smitum fjölgað í landshlutanum, en ekki liggur fyrir hvar ca fjórir einstaklingar af þeim 21 eru búsettir. Búast má við að það skýrist síðar í dag þegar lögreglan á Vesturlandi gefur út daglegar tölur um fjölda og staðsetningu smita.

Í ljósi þess að faraaldurinn er enn í vexti eru íbúar hvattir til að huga vel að persónubundnum smitvörnum, hafa hægt um sig, fylgjast grannt með þróun mála og forðast eins og hægt er og að koma saman að óþörfu. Einnig eru íbúar sem hafa einkenni COVID-19 hvattir til að hafa samband símleiðis við heilsugæslustöð sem metur þörf á sýnatöku.

Líkar þetta

Fleiri fréttir