Hjörtur Sigurðsson útgerðarmaður var með þegar gildrurnar voru lagðar í fyrsta skipti.

Tilraunaveiðar á humri hafnar á Breiðafirði

Tilraunaveiðar á humri í gildrur eru hafnar á Breiðafirði. Þær verða stundaðar á bátnum Ingu P SH-423. Skipstjóri er Klemens Sigurðsson en útgerðarfélagið Kvika hefur tekið að sér veiðarnar fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum. Á mánudagskvöldið var 71 gildra lögð norður af Bárðargrunninu. Fyrst voru gildrurnar lagðar án beitu til prufu, en síðan var dregið og beitt í þær og lagðar að nýju. Nú liggja þær því í sjó þangað til veður leyfir til þess að draga þær upp og vitja um aflann í þeim. Gildrurnar eru settar á leiðara og eru 15 faðmar á milli hverrar gildru. Beitt var síld sem veidd var á Færeyjamiðum.

Vinnslustöðin hefur verið með tilraunaveiðar í humargildrur út frá Suðurlandi með ágætum árangri. Þessar veiðar hafa hins vegar ekki verið reyndar áður í Breiðafirði svo nú bíða menn spenntir efir hvernig mun ganga. Veiðar í gildrur eru mun umhverfisvænni veiðiaðferð í samanburði við humartroll. Bæði er botninn ósnertur með þessu móti og minni olíueyðsla en á stærri trollbátum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir