Þórarinn með bjarndýrshaminn. Ljósm. Skessuhorn/mm

Opnar á morgun sölusýningu á uppstoppuðum dýrum og fiskum

Þórarinn Helgason hamskeri á Akranesi opnar á morgun, laugardag, sýningu á uppstoppuðum fuglum og fiskum í Galleríi Bjarna Þórs við Kirkjubraut á Akranesi. Á sýningunni má meðal annars sjá fiska, fugla, rauðref og bjarndýrs feld, en dýr þessi eru öll amerísk að uppruna og stoppuð upp þegar Þórarinn var í námi í Ameríku 1997.

Þórarinn varð sjötugur fyrr á þessu ári og hættur almennri þátttöku á vinnumarkaði. Fyrstu ár ævinnar bjó hann í Reykjavík en flutti sem barn með foreldrum sínum til Æðeyjar í Ísafjarðardjúpi þar sem hann ólst upp. Í eyjunni er fjölskrúðugt fuglalíf og verpa þar a.m.k. 27 tegundir að staðaldri. „Ég held ég geti sagt að áhuginn á hamskurði hafa kviknað snemma og megi rekja til umhverfisins sem ég elst upp í. Það var svo fyrir tilstuðlan Finns Guðmundssonar að ég komst til náms í hamskurði hjá The Royal Scottish Museum í Edinborg. Það var haustið 1969 og stóð námið í tvo vetur. Árið 1973 vann ég á Náttúrufræðistofnun Íslands en þá um áramótin flutti ég svo á Akranes með fjölskylduna og höfum við búið hér síðan.“

Þórarinn segist oft hafa haft hamskurðinn með til hliðar við aðra vinnu. Hann var lengi háseti á Akraborginni eða allt þar til göngin voru opnuð og siglingar lögðust því af. „Á þeim tímapunkti þurfti ég að leita hófanna að einhverju nýju að gera og innritaði mig til upprifjunarnáms í hamskurði í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Ég var á þeim námstíma búsettur í fámennum bæ sem heitir Stoystown en skólinn var Northern School of Taxidermy. Þetta námskeið stóð í þrjá mánuði og var ég að vinna við uppstoppun á fiskum, fuglum og spendýrum. Einnig var kennd sútun og sitthvað fleira. Ég útskrifast þaðan með diploma í hamskurði að uppfylltum þeim gæðakröfum sem skólinn setti.“

Fiskarnir og dýrin sem hann sýnir nú eru frá þeim tíma sem hann var við nám í Bandaríkjunum. Þar má því finna framandi skepnur eins og rauðref, geddur, brúnandarpar og fasana en einnig meira kunnuglega fiska á borð við bleikju og regnbogasilung. Þórarinn segir að íslensku dýrin sem hann hefur stoppað upp í gegnum tíðina hafi oftast verið unnin fyrir viðskiptavini og því eigi hann færri slík eintök til að hafa á sýningunni. „Ég er þarna einnig með haus af birni og haminn af honum, eða „Rug,“ eins og það er kallað. Í náminu reyndi ég að passa að vera ekki að stoppa upp of stór dýr þar sem ég vissi að ég ætti eftir að flytja þau heim. Því valdi ég að stoppa upp rauðref og fugla meðal annars.“

Sýning Þórarins í Galleríi Bjarna Þórs er sölusýning og verður hún opin á opnunartíma gallerísins fram í nóvember. Á morgun ætlar hamskurðarmeistarinn að vera við og taka á móti gestum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir