Undirbúningsnefnd fyrir málþing um lífsgæði fatlaðs fólks á Snæfellsnesi. F.v. Sveinn Þór Elinbergsson, Gunnhildur Hafsteinsdóttir, Birta Antonsdóttir, Sigríður Arnardóttir og Jón Haukur Hilmarsson. Ljósm. aðsend.

Málþing framundan um lífsgæði fatlaðs fólks

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga, í samvinnu við velferðarnefndir aðildarsveitarfélaga byggðasamlagsins og félagmálanefnd Snæfellinga, hefur boðað til málþings með yfirskriftinni „Lífsgæði fatlaðs fólks á Snæfellsnesi.“ Það verður haldið í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík 22. október næstkomandi og eru allir velkomnir og skráning hafin á jonhaukur@fssf.is.

Aðspurður segir Sveinn Þór Elinbergsson, forstöðumaður Félag- og skólaþjónustu Snæfellinga, tilgang málþingsins vera að meta kjör og lífsgæði fatlaðs fólks á Snæfellsnesi og móta nýja stefnu og áherslur í þjónustuþáttum fólks með fötlun. „Það eru að koma viss tímamót en brátt verður hartnær áratugur síðan ný lög voru sett og málefni fatlaðs fólks flutt frá ríkinu til sveitarfélaga. Síðan hefur mikil uppbygging átt sér stað í þágu fatlaðs fólks hér á Snæfellsnesi og nú er tíminn til að fara yfir stöðuna og móta nýja áherslur í þjónustu okkar hér á Snæfellsnesi, að hún fylgi opinberri stefnumótun sem liggur að baki nýju lagaumhverfi um réttindi þessara einstaklinga til betri lífsskilyrða um sjálfstætt líf og þannig virkari þátttöku í samfélagi án aðgreiningar, með stuðningi sveitarfélaganna,“ segir Sveinn Þór.

Samfélög án aðgreiningar

Síðan sveitarfélögin tóku yfir málefnum fólks með fötlun í ársbyrjun 2012 hefur mikil uppbygging átt sér stað á Snæfellsnesi í þessum málaflokki. „Áður var lítið í boði fyrir þennan hóp fólks hér á Snæfellsnesi og í öðrum smærri bæjarfélögum annað en þó gagnmerk ráðgjafaþjónusta svæðisskrifstofunnar hér á Vesturlandi sem líkt og aðrar slíkar á þeim tíma. Fyrir um 40 árum byggðist þjónusta í málaflokknum upp miðlægt í hverjum landsfjórðungi. Hjá okkur Vestlendingum á Akranesi eða í Borgarnesi, þ.e. búsetuþjónustu og verndaðir vinnustaðir og fleira. Á þessum fyrri tímum þurftu margir fatlaðir íbúar á Snæfellsnesi sem þurftu og vildu slíka þjónustu því að flytja frá Snæfellsnesi þangað sem slík þjónusta var til staðar,“ segir Sveinn og bætir við að nú eigi fólk með fötlun, samkvæmt nýju lagaumhverfi, að geta valið sér búsetu og fengið þá þjónustu sem þarf auk þess að hafa sömu tækifæri til atvinnu og menntunar og aðrir. „Við viljum að fólk með fötlun geti lifað og starfað í sínu bæjarfélagi þar sem það kýs að búa eins og aðrir, í samfélag án aðgreiningar. Í því felst líka að skilgreina ekki allt fólk með fötlun í einn hóp heldur sem einstaklinga,“ segir Sveinn Þór.

Tími fyrir ný markmið

Á málþinginu í Klifi mun Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, flytja erindi auk annarra gesta. „Dagskráin hefst á því að nokkrir góðir gestir flytja erindi þar sem farið verður yfir ýmis mál er varða stöðu fatlaðs fólks og möguleika þess til aukinnar þjónustu og lífsgæða í nánasta umhverfi. Að því loknu munu frummælendur sitja fyrir svörum frá gestum í sal,“ segir Sveinn. Aðspurður segist hann að þau í undirbúningsnefdinni voni að málþingið stuðli að aukinni vitund um rétt fólks með fötlun til ýmiss konar þjónustu og þar af leiðandi aukinna lífsgæða með stuðningi samfélagsins, sem felist m.a. í virkri og sýnilegri lífseflingu til þátttöku í lífi og starfi í sveitarfélagi sem það kýs og vill eiga heima í, til jafns við aðra, í samfélagi án aðgreiningar. „Á næsta ári verðum við búin að fanga flest markmið sem við settum okkur þegar við tókum við málaflokknum frá ríkinu. Nú er því tími til kominn að setja okkur ný markmið í frekari þjónustu sveitarfélagnna en umfram allt efla þekkingu og vitund sem flestra um inntak nýrra laga, aukna möguleika þessara einstaklinga í samfélagi án aðgreiningar,“ segir Sveinn Þór að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir