Áður kynntar varúðarráðstafanir áfram í gildi

Viðbragðsteymi Stykkishólmsbæjar fundaði með aðgerðarstjórn almannavarna á Vesturlandi í dag í ljósi vaxandi smita COVID-19 síðustu daga. Síðasta sólahring hafa greinst tvö ný smit tengd Stykkishólmi, annar einstaklingurinn var í sóttkví í Stykkishólmi en hinn er með lögskráningu í Stykkishólmi en dvelur í Reykjavík. Í Stykkishólmi eru nú 11 skráðir með staðfest smit og í einangrun, þar af eru tveir sem taka út einangrun í Reykjavík. Í dag fóru 11 einstaklingar í sýnatöku og er niðurstöðu þeirra sýna að vænta á morgun.  „Niðurstaða fundarins var sú að hvorki þótti tilefni til að herða né slaka á aðgerðum. Þær varúðarráðstafanir sem gripið var til fyrr í vikunni þóttu hafa skilað góðum árangri og full ástæða til að halda áfram á þeirri braut næstu daga. Áður auglýstar varúðarráðstafanir eru því enn í gildi, þ.m.t. hólfaskipting í skólastofnunum og heimsóknarbann á dvalarheimili aldraðra. Staðan verður endurmetin á mánudaginn,“ segir Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir