Séra Þráinn Haraldsson sóknarprestur vígir stækkun Akraneskirkjugarðs. Ljósm. mm.

Stækkun Akraneskirkjugarðs er nú lokið

Síðdegis í gær var við hátíðlega athöfn vígð stækkun Akraneskirkjugarðs við Garða. Fyrsta gröf í nýja garðinum var svo tekin í morgun. Síðasta stækkun kirkjugarðsins er frá árinu 2000 og langt komin að fyllast, sem og önnur eldri grafarstæði. Sökum þess að grunnt er á klapparholt undir nýja grafarstæðinu í norðanverðum garðinum var það hækkað með því að aka í hann jarðvegi, en síðan þökulagt milli göngustíga og snyrtilega gengið frá svæðinu. Það verk var unnið af BÓB vinnuvélum í samráði við Jón Guðmundsson garðyrkjumann sem sinnir umhirðu Akraneskirkjugarðs.

Séra Þráinn Haraldsson sóknarprestur stýrði athöfninni en séra Jónína Ólafsdóttir, Anna Kristjánsdóttir og Indriði Valdimarsson lásu ritningartexta. Þráinn sagði það hátíðlega stund þegar nýr hluti kirkjugarðs er vígður, enda kirkjugarðurinn helgur reitur sem skiptir bæjarbúa miklu máli, þar eru ástvinir kvaddir og fólk á sínar helgu stundir. „Kirkjugarður á að vera staður vonar þar sem við erum minnt á þá von sem við eigum í upprisu Jesú Krists frá dauðum,“ sagði hann meðal annars.

Kvöldsólin var að hníga til viðar þegar athöfnin fór fram og skuggar langir á jafndægri að hausti eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Eftir athöfn slógu klukkurnar í turninum í garðinum.

Séra Jónína Ólafsdóttir fer með ritningarorð.

Garðurinn var hækkaður og hann stækkaður til norðurs. Ljósm. Akraneskirkja.

Líkar þetta

Fleiri fréttir