Stal „löggubíl“ og ók á brott

Haft var samband við Lögregluna á Vesturlandi að morgni mánudags og tilkynnt um innbrot í Grunnskóla Grundarfjarðar. Lögregla kannaði málið og við eftirgrennslan hennar kom í ljós að sami aðili hafði farið inn í læsta aðstöðu kvikmyndafyrirtækis, sem nú er við tökur á sjónvarpsþáttaröð í Grundarfirði og tekið þar bíllykla ófrjálsri hendi. Lyklarnir voru að bíl sem gegnir hlutverki lögreglubíls í sjónvarpsþáttunum. Hann er í eigu Lögregluminjasafnsins og lítur út eins og alvöru lögreglubíll. Þennan „löggubíl“ tók maðurinn og ók af stað sem leið lá að Borgarnesi. Að sögn lögreglu sneri hann við þar en ekki er vitað hvort hann ætlaði sér að fara lengra. Um er að ræða ungan einstakling sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, að sögn lögreglu. Kæra liggur fyrir vegna þessa athæfis en málið er til rannsóknar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir