Mættur í morgunsárið til vinnu, hér framan við Kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki. Ljósm. aðsend.

Gítarleikari starfar við kjötsögina í sláturtíð

Reynir Hauksson gítarleikari, sem sérhæft hefur sig í Flamengo tónlist, fór heldur betur óhefðbunda leið nú í haust í atvinnuleysi sviðslistafólks. Hann réði sig til starfa í sláturhús KS á Sauðárkróki, þrátt fyrir að hafa aldrei stigið fæti inn í sláturhús áður. „Ég var í fyrstu mátaður inn í nokkur störf hér í sláturhúsinu áður en það rétta fannst. Prófaði m.a. úrbeiningu, var um tíma að hengja framlappirnar á bandið fyrst eftir að skrokkarnir koma úr banaklefanum og svo var ég um tíma í fláningunni. Ég var síðan fenginn í að sjá um heimtökukjöt fyrir bændur sem leggja hér inn lömb. Líklega var það niðurstaðan í ljósi þess að ég er Íslendingur og get því haft samskipti við bændurna. Við sem störfum í heimtökunni mætum fyrstir á morgnana, eða klukkan fimm. Okkar hlutverk er að taka skrokkana úr kælingunni; saga og pakka kjötinu eftir óskum bændanna. Bændurnir svo ýmist sækja kjötið til okkar eða við komum því á bíla sem flytja það heim til þeirra,“ segir Reynir. Aðspurður segist hann ekki óttast um fingurna, atvinnutækin sín, í ljósi þess að hann er að vinna við kjötsögun. „Míró vinur minn er mest í að saga. Þrátt fyrir langan starfsaldur hefur hann haldið öllum sínum fingrum,“ segir Reynir.

Sjá spjall við Reyni Hauksson í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir