Mótorhausasögur sem kitla hláturtaugarnar

Bókaútgáfan Sæmundur hefur gefið út bókina Mótorhausasögur. „Þetta rit segir sannar og sannlognar gamansögur af allskonar fólki í, við, undir, í kringum og ofan á bílum, hér og þar. Þar má nefna Baldur búktalara, Dóru gjafmildu, Jón góðan daginn, Benna bensínstígvél, Alexöndru Mist, Magga á 80, Dóna í Garðlist, Stefni í Óefni, Stíg í Minna-Viti og Jesú Krist ásamt löggum, leigubílstjórum, bifvélavirkjum, flutningabílstjórum, Páfanum og einni klækjóttri nunnu,“ segir í kynningu.

Ritinu er gert að svara áleitnum spurningum, eins og hvort hægt sé að mæðast við akstur og festast undir mælaborði, hvað varð um Badda á Bjúkkanum sem Stuðmenn ortu um, hvort apaköttur hafi einhvern tímann sigrað í kappakstri, hvort sterkar hásingar geti valdið skilnaði, hvernig Cadillac klúðraði hönnun öskubakka, hvers vegna Bretar framleiða ekki tölvur og hvers vegna Skilnaðar-Barbie kostar meira en Útivistar-Barbie.“

Mótorhausasögur eru gefnar út í vandaðri litprentaðri bók, prýddri fjölda ljósmynda sem sumar hafa hvergi birst áður, svo sem myndin af þeim Stefni í Óefni og Stíg í Minna-Viti sem skreytir bókarkápu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir