Á leiðinni að Bifröst. Ljósm. James Einar Becker.

Býðst að hefja nám á miðri önn

Háskólinn á Bifröst hefur ákveðið að bjóða fólki að hefja háskólanám nú á haustmánuðum. Í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu opnar skólinn fyrir möguleika á námi í seinni lotu haustannar sem hefst mánudaginn 19. október nk. „Boðið verður upp á einingabær námskeið bæði í grunn- og meistaranámi sem nýtast í áframhaldandi nám eða símenntun. Nemendur geta skráð sig í stök námskeið í gegnum símenntunarmiðstöð skólans. Námskeið þessi eru kennd í grunn- og meistaranámi skólans. Nemendur geta í framhaldinu, eða um næstu áramót sótt um formlega skólavist á Bifröst óski þeir þess. Námskeiðin sem hægt er að taka nú verða þá metin inn í námsferil nemandans ef viðkomandi hefur formlegt nám á Bifröst,“ segir í tilkynningu.

Þátttakendur í þessu haustnámi þurfa að uppfylla aðgangsviðmið háskóla en hugsunin er sú að námskeið þessi geti verið fyrsta varðan á háskólagöngu viðkomandi á Bifröst. „Hér er sem sagt um að ræða nokkurs konar glugga fyrir fólk til að hefja háskólanám á miðri önn. Þeir sem ekki innritast formlega í Háskólann á Bifröst fá skjal frá símenntuninni um að viðkomandi hafi lokið námskeiðinu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir