Á Grjóteyrarhæð þar sem banaslysið varð fyrir ári. Ljósm. mm.

Var með öryggisbeltið undir handarkrikanum

Farþegi sem lést af völdum áverka sinna eftir árekstur á Borgarfjarðarbraut við Grjóteyri í september í fyrra var með bílbeltið ranglega spennt. Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur líkur á því farþeginn hefði lifað slysið af hefði öryggisbeltið verið spennt með réttum hætti.

Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að Nissan-jepplingi hafi verið ekið austur Borgarfjarðarbraut að morgni dags. Í honum voru ökumaður og tveir farþegar í aftursæti. Rigning var og bjart í veðri, en talsverður vindur og gekk á með hviðum. Rétt austan Seleyrarár ók ökumaðurinn yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir Hyundai-bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Við áreksturinn kastaðist Huyndai-bifreiðin aftur um rúma tíu metra og snerist í hálfhring. Nissan-jepplingur snerist og rann áfram, um það bil fimm metra.

Snörp vindhviða

Talið er að snörp vindhviða hafi valdið því að ökumaður jepplingsins missti hann yfir á rangan vegarhelming. Ökumenn beggja bifreiða sögðu báðir frá kröftugri hviðu rétt áður en áreksturinn varð. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að ökumaður jepplingsins hafi haft litla reynslu af akstri á Íslandi og þótt erfitt að aka við þessar aðstæður. Ökumaður Huyndai-bifreiðarinnar hafi sömuleiðis ekki verið reynslumikill ökumaður. Þá reyndust hjólbarðar jepplingsins slitnir og tjara í mynstrinu, sem talið er getað hafa skert möguleika ökumannsins á að bregðast við snarpri vindhviðu á blautu yfirborði vegarins.

Með beltið í handarkrikanum

Farþeginn sem lést sat vinstra megin í aftursæti jepplingsins og var með öryggisbeltið ranglega spennt. Hafði hann sett axlarbeltið undir handarkrikann og hlotið við áreksturinn banvæna brjóst- og kviðarholsáverka, að því er fram kemur í skýrslunni. „Að mati nefndarinnar eru líkur á að farþeginn hefði lifað slysið af hefði öryggisbeltið verið spennt með réttum hætti,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Hinn farþegi bílsins, sem einnig sat í aftursætinu, var ekki í bílbelti og kastaðist fram á sætisbakið fyrir framan sig. Ökumaðurinn hlaut ekki mikla áverka. Hann var spenntur í belti og loftpúði í stýri blés út við áreksturinn.

Ökumaður Huyndai-bílsins var einn á ferð. Hann var í belti og loftpúði í stýri blés út. Hann hlaut hins vegar mikla áverka, sem nefndin telur að rekja megi til þess að ökumannsrými bílsins aflagaðist við áreksturinn.

Belti séu rétt spennt

Í ábendingum sínum í skýrslunni leggur nefndin áherslu á að ökumenn og farþegar séu alltaf með öryggisbeltin rétt spennt. Afar mikilvægt sé að axlarbeltið liggi yfir brjóstkassa og viðbeini. Annars sé hætta á að álagið frá beltinu sem myndast við árekstur lendi á kviðarholinu. Það geti valdið miklum og lífshættulegum áverkum, eins og gerðist í slysinu á Borgarfjarðarbraut í september í fyrra.

Þá kemur einnig fram að frá 1998 hafi nefndin rannsakað ellefu banaslys í umferðinni þar sem vindhviða er talin orsakaþáttur. Jafnframt er því beint til ökumanna að mikilvægt sé að halda hjólbörðum bifreiða hreinum og þrífa þá ef tjara safnast upp í þeim, því uppsöfnuð tjara minnki veggrip.

Líkar þetta

Fleiri fréttir