Stjórnlagaráð að störfum 2012. Ljósm. fengin af vef stjornarskra.com.

Hafa opnað staðreyndavakt um stjórnarskrármál

Samand ungra Sjálfstæðismanna hefur sett á laggirnar staðreyndavakt um íslensku stjórnarskrána, breytingar á stjórnarskránni, breytingatillögur og annað sem að stjórnarskránni snýr. Finna má staðreyndavaktina á vefsíðunni www.stjornarskra.com

„Með staðreyndavaktinni vill SUS leggja sitt af mörkum til að umræða um stjórnarskrármál sé byggð á því sem rétt er og finna má stoð fyrir á vef Alþingis og í öðrum opinberum gögnum en ekki á einstaka skoðunum eða rangfærslum,“ segir í tilkynningu frá SUS.

„Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og annars staðar um gildandi stjórnarskrá og þær tillögur sem stjórnlagaráð lagði fram fyrir um áratug sem kölluð er „nýja stjórnarskráin“. Samtök eins og Stjórnarskrárfélagið og Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá berjast fyrir upptöku og lögfestingu tillagna stjórnlagaráðs og byggja þá baráttu að mestu á rangfærslum. Samfélagsmiðlaherferð var hleypt af stað á dögunum þar sem þekktir Íslendingar bera margar rangfærslur á borð og lögfesting „nýju stjórnarskrárinnar“ kynnt sem lausn alls þess sem teljast má pólitískt bitbein í íslensku samfélagi. Er þetta til þess fallið að afvegaleiða umræðu um stjórnarskrármál og ýta undir misskilning og upplýsingaóreiðu,“ segir í tilkynningunni.

„Á vefsíðunni www.stjornarskra.com má finna svör við algengum spurningum og ýmsar rangfærslur sem flogið hafa hátt í umræðunni síðustu daga leiðréttar. Þá er einnig aðgengileg tímalína yfir endurskoðun stjórnarskrárinnar árin 2009-2020 og önnur fræðsla um stjórnarskrármál. SUS telur að umræða um stjórnarskrána og breytingar á henni verði að byggja á því sem rétt reynist til að komast megi að niðurstöðu í sem víðtækastri sátt um stjórnarskrána til framtíðar. Stjórnarskrá hvers ríkis er grundvöllur eða rammi fyrir öll önnur lög sem sett eru í landinu. Hún tryggir grundvallarréttindi hvers og eins borgara og kveður á um grunnstoðir stjórnskipunar.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir