
Horfið verður til heimanáms næstu viku í FVA
Í dag var haldinn fundur menntamálaráðherra og skólastjórnenda framhaldsskólanna. Rætt var um viðbrögð við nýrri bylgju smita vegna COVID-19. „Ekki hefur verið lagt til að breyta núgildandi sóttvarnarreglum á landsvísu en í ljósi þess að smit er á sveimi á Skaganum, og beðið þess að hægt sé að taka sýni úr nemendum FVA í sóttkví, telur skólameistari nauðsynlegt að gripið sé til aðgerða í eina viku, dagana 21.-25. september,“ skrifar Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari í tilkynningu til nemenda skólans sem var að berast.
Breyttar reglur næstu viku í FVA, verða sem hér segir:
- Allt bóknám í fjarkennslu í INNU frá og með morgundeginum, 21. sept. Sjá stundatöflu í INNU sem er verið að breyta núna
- Allt verknám kennt á staðnum, grímuskylda (skólinn útvegar grímur)
- Starfsbraut, nánari upplýsingar verða sendar til nemenda og forráðamanna
- Íþróttir kenndar utan dyra
- Mötuneyti opið fyrir þá sem eru í skólanum og á heimavist
- Skrifstofufólk á staðnum í tveimur teymum
- Námsráðgjafar og skólahjúkrunarfræðingur til viðtals í síma/tölvupósti
- Tölvuþjónusta, óbreytt þjónusta
- Bókasafn, lokað fram á miðvikudag
- Heimavist opin, grímuskylda (skólinn útvegar grímu)
„Gefumst ekki upp þótt móti blási, vonandi getum við hafið staðnám að nýju í næstu viku. Þangað til, sprittið ykkur og þvoið um hendur og farið varlega,“ skrifar Steinunn Inga.