Kóvidfaraldurinn kominn á fullan skrið að nýju

Fjöldi greindra kórónuveirusmita í landinu tók heljarstökk í gær, þegar 75 ný smit greindust innanlands. Svo mörg smit hafa ekki verið greind á einum degi frá því 1. apríl síðastliðinn, þegar 99 smit voru greind á einum degi. Helmingur þeirra sem greindust í gær höfðu verið í sóttkví. Í gær voru tekin um 4.100 sýni og af þeim 1.186 vegna einkenna hjá viðkomandi. Fimm prósent þeirra sem sýndu einkenni reyndust sýktir.

Hér á Vesturlandi er nú einn í einangrun með veiruna og 12 í sóttkví, samkvæmt upplýsingum á Covid.is. Á landsvísu eru 181 í einangrun og 765 í sóttkví. Veiran er því orðin töluvert útbreidd að nýju, einkum á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnayfirvöldum er ungt fólk í miklum meirihluta sýktra. Tveir eru nú á sjúkrahúsi með veiruna.

„Pössum okkar eigin sóttvarnir“

Upplýsingafundur almannavarna hefur verið boðaður klukkan 14 í dag. Víðir Reynisson hjá Almannavörnum segist í samtali við Vísi.is í morgun að nú sé verið að skoða mögulegar aðgerðir. Sama til hvaða aðgerða verði gripið snúist þetta um samstöðu okkar allra. „Við erum búin að ganga í gegnum þetta og þekkjum öll hvað þarf að gera. Við þurfum að draga úr samneyti við aðra. Við þurfum að vera í minni hópum og við þurfum að passa okkar eigin sóttvarnir. Þetta er það sem við gerðum svo vel í vor. Við þurfum að gera það núna, hratt og örugglega, og byrja strax,“ sagði Víðir við fréttavef Vísis.

Líkar þetta

Fleiri fréttir