Verðlaunahafar ásamt Halldóru Lóu og Þórdísi Sif. Á myndina vantar þau Evu Lind og Unnar, eigendur Smátúns í Reykholtsdal. F.v. Halldóra Lóa, Þórdís Sif, Torfi Guðlaugsson í Hvammi ásamt dóttur sinni, Steinunn Pálsdóttir og Aðalsteinn Símonarson sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Límtrés – Vírnets.

Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar voru afhentar í gær

Árlegar umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar voru afhentar í gær fyrir snyrtimennsku við hús og lóðir í sveitarfélaginu auk þess sem hvatningarverðlaun voru veitt. Það voru þær Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, varaformaður umhverfis- og landbúnaðarnefndar, sem afhentu viðurkenningarnar. Sem fyrr er það umhverfis- og landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins sem hafði forgöngu um verkefnið; auglýsti eftir tilnefningum, heimsótti staðina sem tilnefndir voru og valdi að endingu hverjir ættu að hljóta viðurkenningar. Í máli Halldóru Lóu kom fram að óvenjulega margar tilnefningar hafi borist að þessu sinni. Í flestum flokkum hafi verið erfitt að velja úr hverjir sköruðu framúr og því hafi nefndin ákveðið að birta að þessu sinni nöfn þeirra sem tilnefndir voru.

Smátún snyrtilegasta lóðin

Í flokki lóða við hús fengu eftirtaldar lóðir tilnefningar:  Borgarvík 5, Arnarklettur 19, Kveldúlfsgata 2a, Smátún á Kleppjárnsreykjum, Þorsteinsgata 11 og Þórunnargata 7. Smátún á Kleppjárnsreykjum varð fyrir valinu sem snyrtilegasta lóðin. Smátún er í eigu þeirra Evu Lind Jóhannsdóttur og Unnars Bjartmarssonar. Smátún er mikið gróin eins hektara lóð í Kleppjárnsreykjahverfinu. Þar er íbúðarhús sem endurbyggt var og stækkað af núverandi eigendum. Upphaflega var húsið byggt til að hýsa þvottahús sveitarinnar en þar var auk þess ýmis önnur atvinnustarfsemi eftir að sjálfvirkar þvottavélar komu á bæi. Lóðin er óvenjuleg að því leyti að í norðurjaðri hennar rennur hveralækur. Þar eru einnig nokkur lítil gróðurhús og útiræktun á grænmeti, hænur og endur vappa um, pínulítil handverksbúð húsfreyjunnar en auk þess verkstæðisaðstaða húsbóndans. Hús og lóð er eins og lítið ævintýraland þegar þangað er komið.

Límtré – Vírnet snyrtilegasta atvinnulóðin

Í flokknum snyrtilegasta lóð við atvinnuhúsnæði voru eftirtalin fyrirtæki tilnefnd: Framköllunarþjónustan, Bifræðaversktæðið Hvannnes Sólbakka 3, Gróðrastöðin Gleym-mér-ei, og Límtré- Vírnet. Það var Límtré-Vírnet sem hlaut viðurkenninguna að þessu sinni.

Hvammur í Hvítársíðu snyrtilegasta bændabýlið

Fyrir snyrtilegustu bændabýlin voru eftirtaldar jarðir tilnefndar: Litla-Brekka, Bóndhóll, Hallkelsstaðahlíð, Brekkukot, Hvammur í Hvítársíðu, Steindórsstaðir, Hvítárvellir og Ytri-Skeljabrekka. Hvammur í Hvítársíðu hlýtur viðurkenninguna að þessu sinni.

Steinka Páls hlýtur samfélagsverðlaunin

Tilnefnd til samfélagsviðurkenningar Borgarbyggðar vegna umhverfismála voru: Agnes Guðmundsdóttir á Síðumúlaveggjum, Steinunn Pálsdóttir Borgarnesi, Reykholtsstaður, Sigur-Garðar garðaþjónusta á Laufskálum og Birgir Hauksson og Gróa Ragnvaldsdóttir í Tröð í Norðurárdal. Það var Steinunn Pálsdóttir sem hlýtur viðurkenninguna árið 2020. Steinka hefur auk tónlistarkennslu á vetrum verið umsjónarmaður með Skallagrímsgarði í Borgarnesi frá 1994. Hún hefur sinnt garðinum og ræktun hans af alúð allan þennan tíma.

Líkar þetta

Fleiri fréttir