Lögð áhersla á að vernda sem best viðkvæmustu hópana

Starfsmenn velferðarsviðs Akraneskaupstaðar og aðrir forsvarsmenn bæjarins hafa fundað í dag og undirbúið aðgerðir í ljósi þess að einstaklingur með Covid-19 smit fór í líkamsræktarstöðina á Jaðarsbökkum síðastliðinn þriðjudag. „Við höfum lagt áherslu á að upplýsa alla hlutaðeigandi um næstu aðgerðir,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. Hann segir að búið sé að herða á reglum varðandi heimsóknir á hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfða og þá verður Fjöliðjan lokuð á mánudag og þriðjudag í næstu viku. „Við viljum verja sem best okkar viðkvæmustu skjólstæðinga. Næstkomandi þriðjudag verður svo stór skimunardagur fyrir alla sem fóru í líkamsræktina á Jaðarsbökkum síðastliðinn þriðjudag. Smitrakningarteymi almannavarna telur ekki þörf á að þeir sem fóru í ræktina eftir þriðjudag þurfi að fara í sóttkví,“ segir Sævar Freyr og bætir því við að staðan verði endurmetin næstkomandi miðvikudag þegar niðurstaða skimunar verði komin í ljós.

Líkar þetta

Fleiri fréttir