Heimsóknarreglur á Höfða uppfærðar

Á föstudag var tekin ákvörðun um að herða heimsóknarreglur á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi. Heimsóknir verða aðeins leyfðar í tvær klukkustundir á dag, eða milli kl. 14:00 og 16:00 og aðeins einn má heimsækja heimilismann. Þær heimsóknir mega ekki fara fram inni á sameiginlegum svæðum heimilisins, eingöngu á herbergjum heimilismanna.

Allir gestir eru beðnir að virða tveggja metra fjarlægðarmörk, þvo hendur sínar áður en lagt er af stað og spritta sig við innganginn. Eingöngu nánustu aðstandendum er leyft að heimsækja heimilismenn og almenna reglan er sú að aðeins einn gestur komi einn í heimsókn á dag.

Þess er krafist að heimsóknargestir fari eftir ítrustu sóttvarnaleiðbeiingum og sérstaklega er mikilvægt að gestir séu ekki í fjölmenni, fari þannig ekki í stórar veislur eða önnur samkvæmi þar sem fleiri en tíu koma saman. Einnig eru mikilvægt að þeir takmarki verslunarferðir sínar, fari til dæmis ekki á háannatíma.

Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir eru í sóttkví eða einangrun, eða bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku. Þeir sem hafa dvalið erlendis mega ekki koma í heimsókn ef þeir ekki eru liðnir sjö dagar frá heimkomu, né heldur þeir sem hafa verið í einangrun vegna Covid-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. Þá mega gestir ekki koma í heimsókn ef þeir sýna einkenni, s.s. kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang og fleira.

Heimsóknargestum er skylt að fara beint inn og út úr herbergi aðstandenda sinna og er óheimilt að dvelja í sameiginlegum rýmum. „Vinsamlega virðið að hér eru íbúar sem kjósa að vera í sóttkví frá utanaðkomandi gestum og þetta er þeirra heimili,“ segir í tilkynningu frá Höfða. Ef gestir þurfa að ná tali af starfsmanni er sá hinn sami beðinn að hringja til hans og bíða svo inni á herbergi þar til hann kemur.

Íbúum er heimilt að fara í bíltúr, gönguferðir og heimsóknir með þeim tilmælum að í þeim ferðum hitti þeir í flestum tilfellum sama fólk heimsækir þá á heimilið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir