Úr líkamsræktarstöðinni við Jaðarsbakka á Akranesi. Ljósm. úr safni/ arg.

Allir sem fóru í ræktina á Jaðarsbökkum á þriðjudag fari í sóttkví

Einstaklingur sem greinst hefur með Covid-19 hafði stundað líkamsrækt í líkamsræktarstöðinni á Jaðarsbökkum á Akranesi þriðjudaginn 15. september síðastliðinn. Þetta staðfestir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn. „Allir sem sóttu líkamsræktina sem iðkendur umræddan dag þurfa að fara í sóttkví til og með þriðjudeginum 22. september nk. Viðkomandi losnar úr sóttkví í framhaldinu þegar hann hefur verið í skimun og fengið neikvæða niðurstöðu,“ segir í frétt á vef Akraneskauptaðar, en þau fyrirmæli eru komin frá smitrakningateymi almannavarna, að sögn Sævars Freys.

Halda þarf sérstaklega vel utan um skráningu þeirra sem fara í sóttkví. Mun Guðmunda Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA, annast skráningu þeirra og miðlun upplýsinga. Allir sem fóru í ræktina á Jaðarsbökkum sl. þriðjudag sem iðkendur eru því beðnir að hafa samband við hana í síma 691-5602 eða á ia@ia.is. Hún mun í framhaldinu senda viðkomandi upplýsingar frá smitrakningarteyminu. „Mikilvægt er að bregðast við þessu sem fyrst svo unnt sé að lágmarka hættuna á frekari útbreiðslu smitsins,“ segir á vef Akraneskaupstaðar.

Sævar Freyr segir að nú í dag muni hann funda með starfsfólki í velferðarþjónustu á Akranesi. Frekari tíðinda sé að vænta síðar í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir