Jónas hefur opnað nýtt verkstæði á Akranesi.

Akbrautin opnuð á Akranesi

Í byrjun mánaðarins var nýtt bíla- og sprautuverkstæði opnað við Dalbraut á Akranesi, við hliðina á Smáprenti. Verkstæðið Brautin var þar til húsa í fjölmörg ár þar til því var lokað vorið 2017. Einn af eigendum Brautarinnar, Jónas Theódór Sigurgeirsson, stendur að opnun nýja verkstæðisins, sem hefur fengið nafnið Akbrautin.

Jónas hefur starfað við bifvéla- og bodyviðgerðir svo gott sem alla tíð. Hann rak Brautina ásamt bræðrum sínum en þeir tóku við verkstæðinu af föður þeirra. Þegar verkstæðinu var lokað fyrir rúmum þremur árum fékk Jónas vinnu á verkstæðinu hjá Norðuráli og á Elkem verkstæðinu fyrir Meitil, en ákvað að hætta þar störfum síðastliðið vor og hefja eigin rekstur á ný. „Ætli þetta sé ekki bara smá ævintýraþrá hjá manni. Ég hafði það mjög fínt inni á Grundartanga. Þar var gott fólk og fínn vinnustaður en ég hafði bara meiri áhuga á fólksbíla- og bodyviðgerðum og langaði að fara aftur í það,“ segir Jónas. Hann tekur að sér réttingar og sprautun og allar bodyviðgerðir. „Ég tek að mér viðgerðir fyrir öll tryggingafélögin og einnig fyrir einstaklinga,“ segir Jónas í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir