Ljósm. úr safni/ glh.

Nítján smit í gær – Mesti fjöldi smita síðan í apríl

Alls greindust 19 ný Covid-19 smit hér á landi í gær, allt innanlandssmit. Ekki hafa fleiri smit greinst á einum degi síðan 9. apríl, þegar 27 smit greindust. Í fyrradag voru smitin 13 talsins og höfðu ekki verið fleiri í meira en mánuð, eins og áður hefur verið greint frá.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 nú í morgun. Hann er höfundur reiknilíkans HÍ um faraldurinn. Hann sagði fjölda smita undanfarna daga ekki í neinu samræmi við spár og taldi þetta benda til þess að faraldurinn væri að sækja í sig veðrið. „Þetta er ekki lengur stakt frávik, þannig að það er eitthvað að gerast. Við þurfum eitthvað að hugsa okkar gang núna,“ sagði Thor sem telur að búast megi við mörgum greindum smitum næstu daga. „Það fer næstum því að hljóma þannig að það sé komið eitthvað nýtt í gang. Í svona aðstæðum, þegar veiran nær sér af stað, þá heldur hún áfram. Það er hegðun svona veiru. Það á eftir að hafa afleiðingar í nokkra daga, að við sjáum fleiri smit,“ sagði Thor Aspelund.

Líkar þetta

Fleiri fréttir