Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósm. úr safni.

Boðar hertar sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir boðar hertar sóttvarnaraðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Hann mun skila minnisblaði þess efnis til heilbrigðisráðherra seinna í dag eða á morgun. Þar segir hann að spjótunum verði ekki síst beint að vínveitingastöðum. Fólk sem sæki þá eigi stóran þátt í þessari nýju bylgju Covid-19 faraldursins. Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Appelsínugul viðvörun vegna kórónuveirusmita hefur verið gefin út á höfuðborgarsvæðinu, en það er næsthæsta viðbúnaðarstigið. Svo virðist sem nýr veirustofn sé kominn til Íslands.

Þórólfur sagði frá því að 39 hefðu greinst með kórónuveirusmit undanfarna þrjá daga og af þeim hafi aðeins ellefu verið í sóttkví. Aðeins eitt smit hefur greinst utan höfuðborgarsvæðisins síðustu þrjá sólarhringa. Hann greindi frá því að þriðjungur þessara smita tengdust vínveitingastöðum, en aðrir stofnunum á borð við háskólana tvo í höfuðborginni. Hins vegar væru engin merki um að smit hefðu átt sér stað innan stofnananna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir