Ómar áttræður í dag

Einn þekktasti fréttamaður landsins, skemmtikraftur, umhverfisverndarsinni og flugmaður, Ómar Ragnarsson er áttatíu ára í dag.

Ómar var nánast frá upphafi sjónvarpsútsendinga hér á landi daglegur gestur á skjánum. Litríkur, líflegur og uppátækjasamur sjónvarpsfréttamaður. Þá hefur hann skemmt landsmönnum á óteljandi samkomum, sungið og samið lög og var m.a. einn af burðarásum í Sumargleðinni sem skemmti landsmönnum um árabil. Í seinni tíð er Ómar þekktastur fyrir einarða baráttu sína fyrir umhverfisvernd hér á landi. Beitti sér t.d. af harðfylgi gegn virkjuninni sem kennd er við Kárahnjúka og skapaði sér með því óvinsældir þáverandi forystufólks í stjórnmálum. Dagur umhverfisins hér á landi hefur um árabil verið afmælisdagur Ómars.

Meðfylgjandi mynd var tekin á bíla- og mótorhjólasýningu Raftanna og Fornbílafjelags Borgarfjarðar í Brákarey fyrir þremur árum. Hluta sérstæðs bílaflota síns geymir Ómar einmitt í eyjunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir