Slitlag fór á síðasta kafla nýja vegarins í dag. Ljósm. Kristinn Jónasson.

Síðasta slitlagið lagt á nýjan veg yfir Fróðárheiði

Eftir hádegi í dag lauk stórum áfanga í samgöngusögu Snæfellinga. Lagt var bundið slitlag á síðasta kafla nýja vegarins yfir Fróðárheiði. Nú er einungis eftir lokafrágangur í kringum vegstæðið. „Þessu fögnum við,“ segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar í færslu á Facebook, en hann tók meðfylgjandi mynd.

Eins og rifjað var upp í Skessuhorni í síðustu viku er nú rétt 91 síðan fyrst var ekið yfir Fróðárheiði, en það var 14. september 1929. Vegurinn um Fróðárheiði liggur í 361 metra hæð og er annar megin akvegur yfir Snæfellsnesfjallgarð. Farið er úr Staðarsveit að sunnan og lent á Útnesvegi lítið eitt austan Ólafsvíkur. Vegurinn liggur um snjóþungt skarð, þar sem veður geta orðið slæm. Endurbygging vegarins nú var að mestu leyti í sama vegstæði og fyrri vegur. Snæfellsnesvegur (54) um Fróðárheiði er stofnbraut en sömuleiðis innansveitarvegur í Snæfellsbæ. Íbúar á sunnanverðu nesinu þurfa að fara um Fróðárheiði til að sækja stjórnsýslu og þjónustu til Ólafsvíkur og Hellissands. Öll öryggisþjónusta, sjúkrabíla, lögreglu og slökkvilis, er að norðanverðu og því voru vegabætur brýnar.

Framkvæmdir við þennan lokakafla endurgerðar vegar yfir Fróðárheiði hófust fyrir hálfu öðru ári og sá Borgarverk ehf. í Borgarnesi um verkið. Í þessum síðasta áfanga var byggður upp 4,8 kílómetra kafli á norðanverðri heiðinni frá Valavatni að vegamótum við Útnesveginn. Nú er komið bundið slitlag á veginn yfir heiðina, rúmlega 90 árum eftir að vegagerð hófst þar fyrst.

Sæmundur Kristjánsson á Hellissandi hefur rifjað það upp að fyrstu heimildir um vegagerð yfir heiðina séu frá árinu 1929. Lesa megi um það í frétt sem birtist í Morgunblaðinu að sumarið 1929 hafi Hildimundur Björnsson verkstjóri í Stykkishólmi farið með flokk manna við vegagerð, aðallega ruðning, á Fróðárheiði og í septembermánuði það sumar hafi Lárus Rögnvaldsson bílstjóri í Stykkishólmi fyrstur manna ekið á bíl yfir heiðina og alla leið til Ólafsvíkur. Hafi ferðin gengið vel og án nokkurra teljandi erfiðleika. Sumarið 1930 var enn unnið að vegabótum á Fróðárheiði og mun það álit flestra sem um veginn fóru þá, að óvíða myndi betur ruddur fjallvegur hér á landi.

Í dagbók Benedikts S. Benediktssonar frá 1929 segir. „14. september komu úr Stykkishólmi góðtemplarar á bíl til Ólafsvíkur og svo á hestum út á Hellissand og héldu fund.“ Þetta mun þá vera dagsetning á fyrstu ferð bíls yfir Fróðárheiði,“ rifjar Sæmundur upp. Síðan eru rétt 91 ár liðin og degi betur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira