Landssöfnun á birkifræi að hefjast

Nú í haust verður birkifræi safnað um allt land og því dreift á völdum, beitarfriðuðum svæðum í öllum landshlutum. Það eru Skógræktin og Landgræðslan sem hafa tekið höndum saman um verkefnið og óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða birkiskóga landsins út. Formlega hefst söfnunin á degi íslenskrar náttúru, á morgun 16. september, en söfnunin stendur svo lengi sem fræ er að finna á birki í haust. Hægt er að nálgast söfnunarbox í verslunum Bónuss og þar verður sömuleiðis tekið við fræinu. Upplýsingar um hvernig á að tína fræi og dreifa því er að finna á vefnum birkiskogur.is.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir sérfræðingur hjá Skógræktinni segir að alltaf þurfi að skrá hvar og hvenær fræið var tínt. Hægt er að skrifa þær upplýsingar á box átaksins eða á miða sem festur er á fræpoka, ef söfnunarbox er ekki notað. Hún vekur jafnframt athygli á að aldrei má láta birkifræ í plastpoka eða aðrar loftþéttar umbúðir.

Fræi sem er skilað á söfnunarstöðvar verður dreift í haust undir leiðsögn starfsmanna Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Átakið er liður í því að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Á rýru landi er gjarnan kolefnislosun því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Þegar landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og binding hefst í staðinn. Íslenska birkið er frumherjategund sem sáir sér mikið út á eigin spýtur ef hún fær til þess frið. Birkið heldur því starfinu áfram ef vel tekst til að koma því af stað á nýjum svæðum.

„Landgræðslan og Skógræktin vilja með þessu átaki auka vitund og áhuga fólks á eflingu náttúrunnar og útbreiðslu birkis, víðis og annars gróðurs á landinu, enda er þátttaka almennings lykillinn að árangri í umhverfismálum,“ segir Sigríður Júlía.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira