Andlát – Séra Brynjólfur Gíslason

Séra Brynjólfur Gíslason, fyrrverandi sóknarprestur í Stafholti í Borgarfirði, lést mánudaginn 7. september síðastliðinn, 82 ára að aldri. Hann var fæddur á annan jóladag árið 1938 á Kirkjubæjarklaustri á Síðu, sonur hjónanna Gísla Brynjólfssonar, prests og prófasts þar og síðar fulltrúa í landbúnaðarráðuneytinu, og Ástu Þóru Valdimarsdóttur húsfreyju.

Brynjólfur lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1968. Áður starfaði hann sem kennari við Gagnfræðaskólann í Keflavík, Gagnfræðaskólann við Lindargötu og Gagnfræðaskóla Austurbæjar og var um tíma blaðamaður á Vísi. Hann var í tvö ár framkvæmdastjóri félagasamtakanna Verndar eða þar til hann var vígður til Stafholtsprestakalls árið 1969. Hann þjónaði í prestakallinu samfleytt í tæplega fjóra áratugi, lét af störfum fyrir aldurs sakir 2008. Hann og eftirlifandi eiginkona hans, Áslaug Pálsdóttir húsfeyja og fyrrverandi leikskólastarfsmaður frá Litlu-Heiði í Mýrdal, fluttu í Borgarnes eftir að prestsþjónustu lauk í Stafholti og hafa búið þar frá 2008.

Brynjólfur var með búskap í Stafholti og var auk þess stundakennari við Varmalandsskóla, Hússtjórnarskólann á Varmalandi og fleiri skóla. Hann var virkur í félagsmálum, m.a. formaður Ungmennafélags Stafholtstungna, sat í skólanefndum Varmalandsskóla og Hússtjórnarskólans á Varmalandi, formaður Sjálfstæðisfélags Mýrasýslu og í stjórn kjördæmisráðs, forseti Rótarýklúbbs Borgarness og endurskoðandi Kaupfélags Borgfirðinga, auk þess að sitja í ritnefnd Borgfirðingabókar og sinna fréttaritun fyrir Morgunblaðið. Þá var Brynjólfur um tíma virkur félagi í Bridgefélagi Borgarfjarðar.

Útför séra Brynjólfs verður gerð frá Reykholtskirkju þriðjudaginn 15. september nk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir