Andlát – Séra Brynjólfur Gíslason

Séra Brynjólfur Gíslason, fyrrverandi sóknarprestur í Stafholti í Borgarfirði, lést mánudaginn 7. september síðastliðinn, 82 ára að aldri. Hann var fæddur á annan jóladag árið 1938 á Kirkjubæjarklaustri á Síðu, sonur hjónanna Gísla Brynjólfssonar, prests og prófasts þar og síðar fulltrúa í landbúnaðarráðuneytinu, og Ástu Þóru Valdimarsdóttur húsfreyju.

Brynjólfur lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1968. Áður starfaði hann sem kennari við Gagnfræðaskólann í Keflavík, Gagnfræðaskólann við Lindargötu og Gagnfræðaskóla Austurbæjar og var um tíma blaðamaður á Vísi. Hann var í tvö ár framkvæmdastjóri félagasamtakanna Verndar eða þar til hann var vígður til Stafholtsprestakalls árið 1969. Hann þjónaði í prestakallinu samfleytt í tæplega fjóra áratugi, lét af störfum fyrir aldurs sakir 2008. Hann og eftirlifandi eiginkona hans, Áslaug Pálsdóttir húsfeyja og fyrrverandi leikskólastarfsmaður frá Litlu-Heiði í Mýrdal, fluttu í Borgarnes eftir að prestsþjónustu lauk í Stafholti og hafa búið þar frá 2008.

Brynjólfur var með búskap í Stafholti og var auk þess stundakennari við Varmalandsskóla, Hússtjórnarskólann á Varmalandi og fleiri skóla. Hann var virkur í félagsmálum, m.a. formaður Ungmennafélags Stafholtstungna, sat í skólanefndum Varmalandsskóla og Hússtjórnarskólans á Varmalandi, formaður Sjálfstæðisfélags Mýrasýslu og í stjórn kjördæmisráðs, forseti Rótarýklúbbs Borgarness og endurskoðandi Kaupfélags Borgfirðinga, auk þess að sitja í ritnefnd Borgfirðingabókar og sinna fréttaritun fyrir Morgunblaðið. Þá var Brynjólfur um tíma virkur félagi í Bridgefélagi Borgarfjarðar.

Útför séra Brynjólfs verður gerð frá Reykholtskirkju þriðjudaginn 15. september nk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira