Nýtt skipurit Borgarbyggðar.

Samþykktu breytingar á skipuriti Borgarbyggðar

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hélt fjarfund síðastliðinn fimmtudag. Þar var á dagskrá umræða um stjórnskipulag sveitarfélagsins. Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri fór á fundinum yfir breytingartillögur að nýju skipuriti sveitarfélagsins. „Skipuritsbreytingarnar eiga að efla starfsemi Ráðhússins og sveitarfélagsins í heild. Breytingarnar fela í megindráttum í sér fjölgun á starfsfólki, þær munu auka ábyrgð starfsfólks, stuðla að meiri gæðum og fela í sér yfirgripsmikla umbótavinnu,“ segir sveitarstjórinn í samtali við Skessuhorn. Hún segir að ákveðið hafi verið fyrir hálfu öðru ári að Borgarbyggð færi í rýnivinnu á stjórnsýslu sveitarfélagsins til að koma á úrbótum.  Útkoman byggir á ferlagreiningu sem Capacent vann fyrir sveitarfélagið á árinu 2019. Á þessu ári var Arnar Pálsson ráðgjafi hjá Arcur fenginn í rýni á stjórnsýslu sveitarfélagsins út frá greiningu Capacent og viðtölum við stjórnendur og byggðarráðsfulltrúa sveitarfélagsins. Í niðurstöðum Arnars var meðal annars lagt til að Borgarbyggð breytti núverandi skipuriti. Eftir kynningu og umræður á sveitarstjórnarfundi síðastliðinn fimmtudag voru breytingarnar samþykktar með átta atkvæðum. Þá var einnig afgreiddar til síðari umræðu breytingar á samþykktum er lúta að stjórn sveitarfélagsins og snerta breytingar á skipuriti.

Nýtt stjórnsýslu- og þjónustusvið

Í hinu nýja skipuriti verður lögð aukin áhersla á þjónustustofnanir sveitarfélagsins. „Það þarf að auka faglega stjórnsýslu, skilvirkni og þjónustu gagnvart þjónustuþegum. Teymisvinna verður bætt og samstarf aukið bæði innan stjórnsýslunnar og utan hennar. „Þessi stefnumörkun er í samræmi við áherslur sveitarstjórnar og því er mikilvægum áfanga náð,“ segir Þórdis Sif. „Stafræn þróun fær meira vægi, sem og gæðastjórnun og ferlagerð. Lögð verður áhersla á gæði stjórnsýslu og að við einbeitum okkur að notendamiðaðri þjónustu. Þá færum við umhverfis- og skipulagssvið undir nýtt svið sem nefnist stjórnsýslu- og þjónustusvið. Þar undir verður jafnframt þjónustuver, sem sér um samskipti við viðskiptavini. Þjónustuverið verður eflt, en það mun gegna lykilhlutverki í móttöku, úrvinnslu og svörun erinda. Önnur svið hjá sveitarfélaginu verða fjármálasvið og fjölskyldusvið. Á fjármálsviði verður lögð aukin áherslu á teymisvinnu, við bætum gæði innkaupa og eftirlit með fjárhagsáætlun og viðaukum. Fjölskyldusvið er að mestu óbreytt, þar sem verkaskipting verður skerpt.“

Byrjað er að vinna að þeim breytingum sem nýtt skipurit felur í sér. „Nú í upphafi þessa ferlis birtum við auglýsingu þriggja starfa. Eitt þeirra starfa er starf nýs sviðsstjóra. Leitað verður að öflugum einstaklingi með áherslu á þekkingu á stjórnsýslu sveitarfélaga, reynslu af innleiðingu þjónustustefnu, teymisvinnu og gerð gæðahandbókar,“ segir Þórdís og bætir við: „Jafnframt leitum við eftir öflugum leiðtoga í starf deildarstjóra skipulags- og byggingarmála og skipulagsfulltrúa.

Skrifstofa sveitarstjóra

Þá mun samkvæmt nýju skipuriti sett á laggirnar skrifstofa sveitarstjóra. „Skrifstofa sveitarstjóra mun vinna, ásamt sveitarstjóra, þvert á alla starfsemi sveitarfélagsins og mun mynda teymi með starfsmönnum annarra sviða til að auka gæði og tímabundin þverfagleg verkefni. Áhersla verður lögð á gæða- og upplýsingamál, verkefnastjórnun, nýsköpun, stafrænar breytingar og umbætur á verklagi ásamt ráðgjöf á sviði mannauðsmála. Samskipti, markaðs-, menningar- og atvinnumál falla jafnframt undir verkefni skrifstofu sveitarstjóra, þar sem áhersla verður lögð á upplýsingamiðlun til allra markhópa sveitarfélagsins, þ.e.a.s. starfsfólks, íbúa, fyrirtækja og gesta.“

Þórdís Sif segir að þessar breytingar munu verða sveitarfélaginu til hagsbóta þar sem aukin áhersla verður lögð á notendamiðaða þjónustuhönnun, tækniframþróun og aukna þjónusta við íbúa og viðskiptavini. „Í þeirri vegferð sem framundan er ætlum við að efla stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélagsins og vera tilbúin til að mæta áskorunum framtíðarinnar. Áhersla verður lögð á þverfaglegt samstarf í verkefnamiðuðu umhverfi og frekari þróun innra starfs sem leiði í senn til framúrskarandi þjónustu og öflugs vinnuumhverfis.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira