Helga Sjöfn og Sigurður Heiðar taka vel á móti viðskiptavinum alla daga til klukkan 20:00. Ljósm. tfk.

Opnuðu sjoppu í þvottahúsi

Hjá Blossa ehf. í Grundarfirði er rekið þvottahús og byggingavöruverslun sem býður upp á ótrúlega breitt vöruúrval. Nú í sumar bættist enn við flóruna þegar eigendurnir opnuðu litla matvöruverslun í anda kaupmannsins á horninu. Þar er hægt að fá ýmsar nauðsynjavörur eins og brauð, ost og mjólk, svo eitthvað sé nefnt. Systkinin Helga Sjöfn og Sigurður Heiðar sjá að mestu um reksturinn ásamt móður þeirra sem rekur þvottahúsið. „Búið er að stytta opnunartíma matvöruverslunarinnar töluvert síðustu misseri og því sjáum við ákveðið tækifæri í þessu“ segir Helga Sjöfn í stuttu spjalli við Skessuhorn. „Okkur fannst sjálfum ómögulegt að hvergi sé hægt að kaupa mjólk eða brauð eftir klukkan 18:00 virka daga og eftir klukkan 17 um helgar,“ bætir hún við, en opnunartíminn hjá þeim er til klukkan átta öll kvöld. „Við vildum auka þjónustustigið í bæjarfélaginu enda ekki verið rekin sjoppa hér í mörg ár,“ segir Helga. Þau segja viðbrögð í bæjarfélaginu vera góð og viðskiptin alltaf að aukast. Gott vöruúrval er í versluninni allt frá hinum ýmsu nauðsynjavörum til gómsæts kruðerís.

Líkar þetta

Fleiri fréttir