Samið um vopnahlé og unnið að skipulagi fyrir Húsafell

Tekist hefur sátt meðal hlutaðeigandi málsaðila um að hefja vinnu við gerð nýs skipulags á Húsafelli svo hægt verði að leysa þær deilur sem uppi hafa verið um skipulagsmál þar, eins og lesendur Skessuhorns þekkja. Í samkomulaginu felst m.a. að kannað verður til hlýtar hvort málsaðilar geti náð saman um sameiginlega hagsmuni á svæðinu. Samkomulagið gerir ráð fyrir því að tíminn fram til 28. október næstkomandi verði nýttur til þess að ná sáttum. Um leið er samþykkt að fresta á meðan sú vinna er í gangi fullnustu réttaráhrifa Héraðsdóms Vesturlands frá í júlí, sem kvað m.a. á um niðurrif nýlegs legsteinahúss í Bæjargili fyrir 14. september næstkomandi, en ella kæmi til greiðslu dagssekta.

Nú verður því unnið að gerð skipulags fyrir Húsafellstorfuna og leitað lausna til að sætta sjónarmið bæði eigenda Gamla bæjarins og þeirra sem byggt hafa upp starfsemi listamiðstöðvar á næstliggjandi lóð. Hlutaðeigandi aðilar málsins hafa í samtali við Skessuhorn staðfest að vopnahlé hafi náðst og að nú verði leitað lausna í málinu með vinnu við gerð skipulags sem allir gætu sætt sig við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir