Úr verslun Krambúðarinnar í Búðardal, sem Dalamenn vilja fá breytt í Kjörbúð að nýju. Ljósm. úr safni.

Samkaup hafna kröfum Dalamanna

Samkaup hafa hafnað kröfu Dalamanna um að opna Kjörbúð að nýju í Búðardal, í stað Krambúðar. Eins og greint var frá í Skessuhorni seint í ágúst söfnuðu Dalamenn undirskriftum meðal íbúa, þar sem mótmælt var breytingum á versluninni í Búðardal úr Kjörbúð yfir í Krambúð síðastliðið vor, þeim verðhækkunum sem breytingunum fylgdu og þess krafist að Kjörbúð yrði opnuð að nýju í sveitarfélaginu. Alls lögðu 320 manns nafn sitt við undirskriftarlistann, eða sem samsvarar rétt tæplega helmingi allra íbúa Dalabyggðar.

Erfiður rekstur til margra ára

Forstjóri Samkaupa sendi sveitarstjóra Dalabyggðar á mánudaginn, með bókun sem samþykkt var á stjórnarfundi Samkaupa í síðustu viku. Þar segir að rekstur verslunarinnar í Búðardal hafi mörg undanfarin ár verið erfiður og afkoma hennar óviðunandi. Breytingar á búðargerð fyrir þremur árum síðan, þegar Kjörbúðin tók við af Samkaup Strax, hafi ekki skilað þeim ávinningi sem vænst var. Þvert á móti hafi rekstrarniðurstaðan versnað enn frekar. Ekki sé hægt að una við stöðugan og vaxandi taprekstur verslunarinnar í Búðardal, enda sé gerð krafa um sjálfbæran rekstur verlsana Samkaupa. Af þeim sökum geti Samkaup ekki orðið við áskorun Dalamanna.

„Mikil vonbrigði“

Baldvin Már Guðmundsson í Búðardal var forsvarsmaður undirskriftalistans. Hann er að vonum óánægður með þessa ákvörðun Samkaupa. „Þetta eru mikil vonbrigði en við erum ekki búin að gefast upp, við höldum áfram. Hvaða leiðir verða farnar kemur í ljós, en við látum ekki bjóða okkur miklu hærra vöruverð en var fyrir breytingarnar,“ segir Baldvin í samtali við Skessuhorn. Jafnframt lýsir hann furðu sinni yfir því að félagið hafi ekki sent honum svarbréfið, sem forsvarsmanni undirskriftalistans. Honum hafði ekki borist svar frá Samkaupum þegar Skessuhorn ræddi við hann nú í morgun, en svar hafði sem fyrr segir borist sveitarstjóra Dalabyggðar á mánudaginn. Baldvin hafði þó fengið afrit af bréfinu. „Af hverju í ósköpunum fæ ég ekki svar frá þeim eins og ég óskaði eftir, sem umboðsmaður og forsvarsmaður undirskriftalistans? Mér finnst það mjög furðulegt, ef ég á að segja alveg eins og er. Mér finnst þeir gera lítið úr undirskriftasöfnuninni með því,“ segir Baldvin.

Kristján Sturluson, sveitarstjóri Dalabyggðar, lýsir sömuleiðis yfir vonbrigðum með ákvörðun Samkaupa. „Mín fyrstu viðbrögð eru mikil vonbrigði með þetta svar stjórnar Samkaupa, að það sé ekkert opnað á að koma til móts við óskir íbúa um breytingar,“ segir Kristján í samtali við Skessuhorn. Hann segir að svarið verði tekið til umræðu á vettvangi sveitarstjórnar og í framhaldinu verði félaginu svarað formlega.

Líkar þetta

Fleiri fréttir