Vilhjálmur Hörður Guðlaugsson nýr eigandi KM þjónustunnar, Karl Ingi og Steinunn sem nú hafa selt reksturinn en munu áfram starfa hjá fyrirtækinu.

Eigendaskipti á KM þjónustunni í Búðardal

Í gær urðu eigendaskipti að KM þjónustunni ehf. í Búðardal. Hjónin Karl Ingi Karlsson og Steinunn Matthíasdóttir hafa rekið fyrirtækið undanfarna tvo áratugi. Nýr eigandi er Vilhjálmur Hörður Guðlaugsson, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu síðastliðin átta ár. KM þjónustan verður eftir eigendaskiptin áfram rekin í sömu mynd, en kjarnastarfsemin er verkstæðisrekstur, verslun og dráttarbílaþjónusta, ásamt ýmissi þjónustu. Starfsmenn eru 6-7 talsins og munu engar mannabreytingar vera áformaðar samhliða eigendaskiptunum.

Í tilkynningu vegna kaupanna kemur fram að KM þjónustan hafi verið í góðum og farsælum rekstri síðustu tuttugu árin en nú sé komið að tímamótum hjá fyrrum eigendum sem hafi ákveðið að selja. Þau Karl Ingi og Steinunn munu áfram starfa hjá KM þjónustunni. Steinunn í sambærilegum verkefnum og áður en Karl Ingi færir sig yfir í verkefni á verkstæði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir