Frá afhendingu bílsins fyrr í dag. Ljósm. Skessuhorn/þa

Nýr sjúkrabíll kominn til Ólafsvíkur

Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur afhent nýja sjúkrabifreið til notkunar í Snæfellsbæ. Það var Gísli Björnsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá HVE, sem afhenti bílinn í dag. Líkt og aðrir nýir sjúkrabílar úr 25 bíla útboði á vegum Sjúkrabílasjóðs RKÍ og Sjúkratrygginga á landinu, er bíllinn af Bens gerð. Þetta er annar bíllinn sem afhentur er úr þessu útboði en fyrsti bíllinn var afhentur á Akranesi í lok júlí eins og fram kom í Skessuhorni. Bílarnir í þessu fyrsta útboði eru fluttir inn af Fastus og Öskju. Þeir eru innréttaðir og útbúnir sem sjúkrabílar hjá Baus í Póllandi. Mun fara enn betur en áður bæði um áhöfn og sjúklinga í þessum nýju sjúkrabílum en þeir eru fjórhjóladrifnir og koma með loftpúðafjöðrun.

Það voru þau Hlynur Hafsteinsson, Erna Sylvía Árnadóttir, Birna Dröfn Birgisdóttir og Patryk Zolobow sjúkraflutningamenn sem veittu bílnum viðtöku. Voru þau að vonum hæstánægð með að nýi bíllinn væri komin og höfðu beðið spennt eftir honum í þónokkurn tíma, að sögn Birnu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir