Krókabátar á makrílveiðum. Ljósm. úr safni/ af.

Makríllinn langt frá miðunum

Sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana lauk 4. ágúst síðastliðinn, en hafði þá staðið yfir frá 1. júlí. Niðurstöður leiðangursins hafa nú verið teknar saman á vef Hafrannsóknarstofnuna, en meginmarkmið hans var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi.

Það ber helst að nefna að vísitala lífmassa makríls var metin á 12,3 milljónir tonna, sem er 7% hækkun frá fyrra ári og mesti lífmassi sem mælst hefur frá því mælingar hófust 2007. Mestur þéttleiki mældist í miðju- og norðanverðu Atlantshafi. Hins vegar mældist 72% minna af makríl á hafsvæðinu við Ísland en árið 2019. Mest var af markíl suðaustur af landinu, ólíkt undanförnum árum þegar mestur þéttleiki hefur mælst sunnan og vestan landsins.

Meira af síld

Magn norks-íslensku síldarinnar hækkaði einnig og var vísitala lífmassans metin á 5,9 milljónir tonna. Er það 24% meira en á síðasta ári. „Þessi aukning skýrist af stórum 2016 árgangi sem er að öllum líkindum að stærstu leyti genginn nú úr Barentshafi inn í Noregshaf. Þessi árgangur, ásamt þeim frá 2013, vógu um 55% af lífmassa stofnsins,“ segir á vef Hafró.

Útbreiðsla síldarstofnsins var svipuð og undanfarin ár. Eldri hluti hans var í mestum þéttleika norður af Færeyjum, fyrir austan og norðan Ísland, en yngri síldin í norðausturhluta Noregshafs.

Minna af kolmunna

Áhersla var lögð á að ná yfir allt útbreiðslusvæði kolmunna og meta stærð þess stofns. Vísitala stofnstærðarinnar var metin 1,8 milljónir tonna, sem er 11% minna en árið 2019. Kolmunni fannst víðast hvar á rannsóknarsvæðinu, nema í köldum sjó við Austur-Grænland og í Austur-Íslandsstraumnum milli Íslands og Jan Mayen, sem og fyrir vestan og sunnan Ísland. Undan Íslandsströndum mældist mest af kolmunna suðaustan og austan við landið, en ólíkt fyrri árum varð ekki vart við kolmunna við landgrunnsbrúnina sunnan við Ísland.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Banaslys við Akranes

Laust fyrir klukkan 21 í gær voru viðbragðsaðilar; lögregla auk björgunarsveita á Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði kallaðar út með hæsta... Lesa meira