Peningar. Ljósm. úr safni/ mm.

Stýrivextir áfram eitt prósent

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að vextir bankans verði óbreyttir. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, sem jafnan eru kallaðir stýrivextir, verða því áfram 1%.

Horfur eru á að landsframleiðsla dragist saman um 7% í ár og útlit fyrir að atvinnuleysi verði nálægt 10% í árslok. En þótt horfur fyrir seinni hluta árs séu lakari en spáð var í maí er talið að samdrátturinn verði nokkru minni en gert var ráð fyrir í vor. Vegur þar þyngst að einkaneysla var kröftugri í vor og sumar. „Óvissan er hins vegar óvenju mikil og þróun efnahagsmála mun ráðast af framvindu farsóttarinnar,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar frá því í morgun.

Verðbólga mældist 2,5% á öðrum ársfjórðungi en var komin í 3% í júlí. Frá því farsóttin barst til landsins hefur gengi krónu hækkað um ríflega 12% og vegur það þungt, að því er fram kemur í yfirlýsingunni. Verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma hafa hins vegar lítið breyst. Spár Seðlabankans gera ráð fyrir því að verðbólga verði í kringum 3% það sem eftir lifir árs. Mikill slaki í þjóðarbúinu, ásamt lítilli alþjóðlegri verðbólgu, geri það að verkum að verðbólga taki að hjaðna á næsta ári og verði um 2% að meðaltali á seinni hluta spátímans.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira