Dauður lax á árbakkanum neðan við Hraunfossa. Ljósm. KS

Töluverður laxadauði í kjölfar aurflóðs í Hvítá

Vatns- og aurflóðið sem varð í Hvítá í Borgarfirði síðdegis á mánudaginn, og náði hámarki aðfarnótt þriðjudags, hefur haft mikil áhrif á lífríki árinnar. Dauðan lax má nú finna hálfgrafinn í aurnum á bökkum árinnar neðan við Barnafoss og Hraunfossa. Vargfugl er nú búinn að uppgötva hvað gerst hefur og sestur að veisluborði.

Flóðið var það mesta sem vitað er um að sumri, en rennsli í ánni fór á nokkrum klukkustundum úr 90 rúmmetrum á sekúndu í 260 rúmmetra á sek. Þann klukkutíma sem flóðið var í hámarki, um klukkan tvö aðfararnótt þriðjudags, má reikna með að tæplega ein milljón rúmmetrar af leirblönduðu vatni hafi runnið um ána við rennslismælinn hjá Kljáfossi. Til samanburðar má nefna að sérfræðingar telja að þegar aurblönduðu vatni var af slysni hleypt úr uppistöðulóni ofan við Andakílsárvirkjun og í Andakílsá fyrir tveimur árum er talið að 20.000 rúmmetrar hafi runnið í ána. Það aurfljóð grandaði öllu dýralífi í ánni eins og þekkt er orðið. Gera má ráð fyrir að það sama hafi nú gerst í Hvítá, sem á þessum tíma árs er rík af bæði laxi og silungi. Að þessu sinni var þó náttúran ein á ferðinni, en gert er ráð fyrir að orsök flóðsins hafi verið sú að opnast hafi útrás fyrir vatnssöfnun í Langjökli vestanverðum. Ekki var unnt að flúga yfir Langjökul í dag þar sem skýjahula lá yfir jöklinum.

Blaðamaður Skessuhorns fór í vettvangsferð um bakka Hvítár í dag, allt frá þeim stað þar sem árfarvegur Svartár rennur í Hvítá og niður meðfram bökkum árinnar í Hvítársíðu og Hálsasveit. Hvarvetna mátti sjá merki þess að vatnsborð árinnar hefur hækkað um þetta frá 1,2-1,5 metra. Gríðarlegt magn af límkenndum jökulleir hefur safnast á áreyrar og upp á bakka. Á nokkrum stöðum má sjá dauða laxa á bökkunum. Lax sem ekki hefur þolað leirblandað vatnið, enda var það líkast steynsteypu, samkvæmt sjónarvottum á þriðjudagsmorgun. Auk áhrifa ofantil í Hvítá mátti glöggt sjá á fjöru í dag að Borgarfjörður ofan við Borgarfjarðarbrú hefur breyst mikið. Sandhólar og nýjar eyrar sjáanlegar á firðinum. Áhrif þessa flóðs eru því töluverð á lífríki Hvítár og ásýnd.

Sandeyri er nú þar sem Ásgil rennur út í Hvítá, skammt neðan við Hraunfossa. Ljósm. MM

Brúin yfir Hvítá norðan við Húsafellsskóg. Nærri lá að flóðið næði upp á brúargólfið, eins og sjá má á sandburðinum við brúarstólpann. Ljósm. mm.

Dauðan lax má víða sjá á bökkunum þar sem áin flæddi yfir bakka sína. Ljósm. KS.

Líkar þetta

Fleiri fréttir