Dauðum laxi eftir flóðið skolaði á land úr Hvítá. Myndin er tekin á móts við Ásgil og glöggt má sjá leir- og aurburð sem flóðið skildi eftir sig á bökkum árinnar. Á myndinni er sjálfboðaliði hjá Umhverfisstofnun með dauðan lax. Ljósm. ET.

Stór spýja hljóp fram Hvítá og rennsli árinnar nær þrefaldaðist

Gríðarstórt flóð sem bar með sér jökulleir hljóp úr vestanverðum Langjökli síðdegis á mánudaginn og í fyrrinótt. Leitaði flóðið sér farvegs um Svartá, sem alla jafnan er uppþornaður árfarvegur, sem rennur sunnan við Hafursfell, og þaðan í Hvítá ofan við ármót Hvítár og Geitár, ofan við Húsafell. Samkvæmt rennslismæli sem er við Kljáfoss við Hurðarbak nær þrefaldaðist rennsli árinnar, fór úr 95 rúmmetrum á sekúndu um miðjan dag á mánudag í 257 rúmmetra þegar hlaupið náði hámarki klukkan 2 aðfararnótt þriðjudags. Áin er svo aftur komin í rúmlega 80 rúmmetra rennsli um hádegisbil í gær, þriðjudag. Svo mikill var vatnsflaumurinn að litlu mátti muna að áin næði trébrúnni yfir Hvítá ofan við Húsafell. Í gærmorgun var áin enn eins og sementslituð og víða mátti sjá aur og sand á bökkum hennar. „Áin var í rauninni eins og fljótandi steypa þegar ég sá hana í gærmorgun,“ sagði Kristrún Snorradóttir á Laxeyri sem rekur veitingastaðinn við Hraunfossa.

Ekki liggur fyrir hvaðan úr Langjökli vatnið kom. Til stendur að fljúga yfir svæðið í dag þegar búist er við að flugfært verði og gott útsýni yfir möguleg upptök flóðsins. „Frá árinu 2004 höfum við ekki séð ámóta stórt sumarflóð í Hvítá,“ staðfesti Kristjana G Eyþórsdóttir, sérfræðingur á vatnasviði Veðurstofu Íslands í samtali við Skessuhorn.

Hér má sjá skjámynd af rennslismælinum við Kljáfoss.

Þessi mynd er tekin við Barnafoss, þegar flóðið var í rénun í gærmorgun. Ljósm. ÞMK.

Loftmynd tekin af Hvítá við vegamótin á Kaldadal í gær. Glöggt má sjá hvað áin er margfalt meiri um sig en venja er til. Ljósm. AB.

Svona var liturinn á Borgarfirði í gær, horft af Borgarfjarðarbrú. Aurframburðurinn er mikill og fjörðurinn jökullitaður. Ljósm. ÞR.

Líkar þetta

Fleiri fréttir