Bjarki á Íslandsmótinu í holukeppni um síðustu helgi. Ljósm. kylfingur.is/Páll Ketilsson.

Glansmynd af golfinu en í rauninni er þetta bölvað puð

Þegar fólk sér fyrir sér atvinnumann í golfi þá á það til að sjá fyrir sér kylfing sem fær hreinlega borgað fyrir að spila golf, en það er oft ekki þannig, hvað þá sérstaklega þegar kylfingar eru rétt að stíga sín fyrstu skref í hópi þeirra bestu. Bjarki Pétursson nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi er í viðtali í Skessuhorni vikunnar sem kom út í gær:  „Það er kannski einhver glansmynd af því að vera atvinnumaður í golfi en þetta er bölvað puð. Ég er virkilega þakklátur fyrir að eiga gott fólk í kringum mig og hafa náð að koma mér inn í styrkveitinguna hjá Forskoti sem er í raun styrktarsjóður á vegum fyrirtækja hérna á Íslandi sem styrkir alltaf þrjá karlkyns kylfinga og þrjá kvenkyns kylfinga. Það er stærsti styrktaraðilinn minn en á móti kemur þá fær maður óendanlega hjálp og aðstoð frá fjölskyldunni,“ segir Bjarki um fjárhagshlið þess að vera atvinnumaður í golfi. „Til dæmis hleypir bróðir pabba mér í vinnu, það hefur nefnilega ekki verið sjálfgefið fyrir mig að fá vinnu. Maður getur ekki beint tilkynnt atvinnuveitanda á mánudegi að maður ætli að skreppa til Spánar í næstu viku að keppa. Það ræður enginn svoleiðis mann í vinnu, eðlilega. Ég er því þakklátur fyrir þennan tíma á Íslandi sem er skrítinn að því leitinu að ég hef aldrei verið með fasta vinnu þegar ég hef verið hér á landi. Nú varð ég að ílengjast hér og því var gott að fá þetta tækifæri hjá frænda mínum, safna smá pening og undirbúa þannig næsta ár. Á móti kemur að ég hef minna æft í sumar en ég er vanur. Þrátt fyrir miklar annir þá hef ég engu að síðu náð að spila og viðhalda leiknum.“

Sjá ítarlegt viðtal við Bjarka Pétursson golfara úr Borgarnesi í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir