Vætusamt á Vesturlandi í dag

Spáð er suglægri átt og víða vætu um sunnan- og vestanvert landið í dag, en bjartviðri með köflum á norðausturlandi. Hvessir heldur og bætir í rigningu á vestanverðu landinu seinni partinn í dag.

Síðdegis í dag og fram á kvöld er spáð sunnanátt, 10-15 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi, en búist við hviðum yfir 20 m/s. „Slíkt er varasamt fyrir ökumenn farartækja sem eru viðkvæm fyrir vindi,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Undangenginn sólarhring hefur rignt mikið á Suður- og Vesturlandi og rignir áfram. Vatnshæð í ám og lækjum hefur því hækkað og líkur á grjóthruni og skriðum aukast. Vöð á hálendinu geta verið varasöm og eru ferðamenn beðnir að hafa það í huga, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Líkar þetta

Fleiri fréttir