Ljósmynd af slæmu brunasári á fótum ungs manns. Blóm Bjarnarklóar á innfelldri mynd. Ljósm. express.co.uk.

Bjarnarkló er ein af eftirlýstum plöntum í náttúrunni

Í vegkantinum við Vesturlandsveg, þjóðveginn á móts við Ölver við Hafnarfjall, er nú vaxin upp plantan Bjarnarkló (Heracleum mantegazzianum). Bjarnarkló er tröllahvönn; stórvaxin sveipjurt sem upprunnin er í Kákasus og Mið-Asíu en var flutt þaðan til Evrópu sem skrautjurt í görðum. Hún líkist hvönn, en er mun stórvaxnari og fjölgar sér með rótarskotum. Þorleifur Geirsson í Borgarnesi hefur sent Vegagerðinni áskorun um að ráðist verði í að eyða plöntunni þannig að hún nái ekki að fjölga sér á svæðinu, enda er hún með hættulegri plöntum sem finnast í jurtaríkinu og raunar ein af fáum „eftirlýstum“ plöntum í íslenskri náttúru.

Bjarnarkló getur valdið alvarlegum brunasárum og jafnvel dauða ef til dæmis barn sýgur úr henni safann. Í Bretlandi er plöntunni sömuleiðis lýst sem þeirri hættulegustu í þarlendri náttúru ef marka má umfjöllun vefritsins express.co.uk. Þar er lýst dæmum af þriðja stigs bruna sem börn hafa fengið á hendur eða fætur með áhrifum sem tekur jafnvel mörg ár fyrir þau að jafna sig af. Ef plantan nær að rispa hörund er læknisráð að þvo hörundið vel og vandlega og forðast sólarljós í nokkra daga á eftir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir