Takmörkun á heimsóknum inn á hjúkrunarheimili vegna Covid-19

Samráðshópur hjúkrunarheimila fundaði í gær með fulltrúum allra hjúkrunarheimila í gegnum fjarfundarbúnað. Þar var kynntur uppfærður upplýsingabæklingur fyrir heimilin til að vinna út frá á meðan að hættustig almannavarna vegna Covid-19 varir eins og nú er. Björn Bjarki Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Brákarhlíðar í Borgarnesi og varaformaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu fer yfir reglurnar í tilkynningu.

Þar segir Björn Bjarki að sömu reglur og giltu frá 1. ágúst verði áfram varðandi heimsóknir til íbúa. Þær heimila að einn aðstandandi heimsæki íbúa á dag og fari heimsóknin fram á milli klukkan 13 og 18. Svipaðar reglur verða á öðrum heimilum og nefna má að á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi verður sá heimsóknartími frá klukkan 14-16. Þá er mælst til þess að sami heimsóknaraðili komi, nema annað gangi alls ekki. Hjúkrunarheimilin skrá niður hver komi í heimsókn. Óheimilt er að hleypa gestum inn á öðrum heimsóknartíma og tekið fram að mikilvægt sé að jafnt gangi yfir alla, bæði varðandi fjölda gesta og tímasetningu. Íbúi getur farið út af heimilinu til að sinna almennum erindum, svo sem læknisheimsóknum og heimsókn til náins ættingja, en gætt verði vel að öllum sóttvörnum, bæði við brottför og komu. Þá er mælst til þess að íbúar fari ekki á hópfagnaði, þar sem fleiri en tíu koma saman, svo sem afmælisveislur og aðra slíka viðburði.

Að endingu segir Björn Bjarki í tilkynningu: „Það er aukið og/eða breytt álag sem þessu fylgir en við búum að reynslunni frá því í vor þar sem við stóðum þétt saman eins og ég er handviss um að við gerum nú. Sýnum öll ábyrgð og ef við erum í vafa um hvort það sé skynsamlegt að koma í heimsókn, já eða fara úr húsi ágætu heimilismenn, þá er mín ráðlegging sú að láta það eiga sig að tefla í tvísýnu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir