Safnið rekið til Oddsstaðaréttar í Lundarreykjadal síðastliðið haust. Ljósm. mm.

Sauðfjárbændur krefjast leiðréttingar á afurðaverði

Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda hefur gefið út viðmiðunarverð fyrir dilkakjöt haustið 2020. Félagið krefst þess að bændur fái að lágmarki 132 kr/kg hækkun frá reiknuðu meðalverði haustið 2019 að viðbættum þeim viðbótargreiðslum sem greiddar hafa verið. Það gerir reiknað meðalverð um 600 kr/kg. Í tillögu Landssamtaka sauðfjárbænda er sömuleiðis gert ráð fyrir að fram fari leiðrétting á afurðaverði á næstum tveimur árum þannig að haustið 2021 verði greitt sambærilegt afurðaverð og var haustið 2013 að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. LS vísar til þess að samkvæmt 8. grein búvörulaga (99/1993) sé Landssamtökum sauðfjárbænda heimilt að gefa út viðmiðunarverð á sauðfjárafurðum. Viðmiðunarverðið er hins vegar ekki bindandi fyrir kaupendur afurða. Verðlagning sauðfjárafurða er frjáls á öllum sölustigum. „Hefði afurðaverð fylgt almennri þróun verðlags frá árinu 2014 þá ætti afurðaverð nú í haust að vera 690 kr/kg,“ segir í ályktun stjórnar LS.

Graf sem sýnir verðþróun á íslensku lambakjöti, hvað vantar uppá verð til bænda miðað við verðlagsþróun og bláu súlurnar sýna kröfu LS. Heimild: LS.

Hrun á árunum 2016 og 2017

Eins og kunnugt er var árin 2016 og 2017 algjört hrun á afurðaverði til sauðfjárbænda. Ástæðurnar voru af ýmsum toga, eins og Unnsteinn Snorri Snorrason framkvæmdastjóri LS rekur í ítarlegri grein 6. ágúst sl.: „Einkum má rekja þær til verðfalls á erlendum mörkuðum og óhagstæðrar gengisþróunar. Afleiðingin kom m.a. fram í óhóflegri birgðasöfnun hjá sláturleyfishöfum og hruni í afurðaverði til bænda. Haustið 2016 lækkaði afurðaverð á lambakjöti um 9,1% og öðru kindakjöti um 33,4%. Árið eftir lækkaði afurðaverðið aftur um 30% og verð á öðru kindakjöti stóð í stað.“ Í greininn skrifar Unnsteinn jafnframt: „Hrun í afkomu á erlendum mörkuðum fyrir kindakjöt og hliðarafurðir þeirra samhliða óhagstæðri gengisþróun var megin ástæðan fyrir þessari þróun. LS beitti sér fyrir aðgerðum sem myndu leiða greinina sem fyrst út úr þessari stöðu. Einkum var horft til aðgerða sem myndu draga úr framleiðslu og jafnframt taka á vandamálum í birgðasöfnun. Ríkisstjórnin kom til móts við hluta kjaraskerðingar bænda í upphafi árs 2018 og farið var í sérstök átaksverkefni í útflutningi 2016-2017 og 2017-2018. Eiginlegar aðgerðir vegna stöðunnar komu ekki til framkvæmda fyrr en endurskoðun sauðfjársamnings lauk í janúar 2019. Inn í þann samning sóttust sauðfjárbændur eftir verkfærum sem gætu til framtíðar hjálpað til við að takast á við ófyrirséða markaðsbresti. Fullyrða má að nær öll landbúnaðarkerfi í heiminum eru byggð upp með slíkum hætti,“ skrifar Unnsteinn.

Lægsta afurðaverð í Evrópu

Landssamtök sauðfjárbænda hafa nú tekið saman gögn sem sýna að það afurðaverð sem íslenskir sauðfjárbændur fengu greitt á síðasta ári er það lægsta sem finnst í Evrópu. Vísar félagið til þess að Evrópusambandið gefur vikulega út yfirlit yfir afurðaverð allra aðildarlanda. Lægsta afurðaverð er greitt til bænda í Rúmeníu sem fá 3,03 evrur/kg sem er um 485 kr/kg (miðað við gengi evru sé 160). Hæsta afurðaverð er greitt til bænda í Frakklandi sem fá 6,55 evrur/kg sem er um 1.048 kr/kg.  Afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda haustið 2019 með viðbótargreiðslum var 468 kr/kg.

Loks bendir Unnsteinn Snorri framkvæmdastjóri LS á gögn sem sýna að verð á lambakjöti til neytenda hefur ekki fylgt almennri verðþróun hér á landi. Samkvæmt greiningu LS er hluti bænda af smásöluverði aðeins 37%. Í nágrannalöndum okkur er hlutur sauðfjárbænda að jafnaði 45-50% af smásöluverði. „Landssamtök sauðfjárbænda fylgjast með þróun smásöluverðs með verðlíkani sem samtökin hafa þróað. Samkvæmt verðlíkani Landssamtaka sauðfjárbænda er smásöluverð á lambakjöti miðað við kaup á heilum skrokk 1.264 kr/kg.  Meðalafurðaverð haustið 2019 með viðbótargreiðslum var 468 kr/kg. Því er hlutur bóndans af smásöluverði 37%. Ef hlutur íslenskra sauðfjárbænda af smásöluverði væri t.d. 47% þá væri afurðaverð 607 kr/kg miðað við að meðal smásöluverð á heilum skrokk sé 1.264 kr/kg.“ skrifar Unnsteinn Snorri Snorrason.

Að lokum má geta þess að afurðastöðvar hafa ekki enn gefið út verðskrár fyrir haustslátrun 2020. Reiknað er með að það muni verða gefið út í næstu viku til að bændur gefi sláturfjárloforð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir