Horft yfir hafnarsvæðið í Stykkishólmi frá Súgandisey. Húsnæði Agustson ehf. fyrir miðri mynd. Ljósm. úr safni. glh.

Fresta upphafi saltfiskvinnslunnar

Upphaf saltfiskvinnslu Agustson ehf. í Stykkishólmi frestast. Vinnslan átti að fara af stað seinni partinn í ágúst en hefur verið frestað um einn til einn og hálfan mánuð, að sögn Sigurðar Ágústssonar, eiganda og framkvæmdastjóra. Hann segir ástæður frestunarinnar vera erfiðar markaðsaðstæður sem rekja megi til Covid-19 faraldursins. „Okkar markaðssvæði eru Spánn og Ítalía sem hafa orðið illa úti í faraldrinum. Þar af leiðandi hafa sölur á okkar afurðum inn á þessi svæði verið tregar. Við þurfum að sýna því einhverja þolinmæði,“ segir Sigurður.

Að sögn Sigurðar hefur engum verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu vegna frestunarinnar, en vinnslustöðvun vegna þessa var tilkynnt um miðjan júlí.

Slæm staða fyrir verkafólk

Þegar um vinnslustöðvun sem þessa er að ræða segir Vignir Smári Maríasson, formaður Verkalýðsfélags Snæfellinga, að starfsfólk verði launalaust mánuði eftir að tilkynnt hafi verið um vinnslustöðvunina. „Starfsfólkið mætir því ekki til vinnu eftir sumarfrí 17. ágúst eins og til stóð og fær greiddar bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði frá þeim tíma,“ segir Vignir í samtali við Skessuhorn. Ráðningarsamband helst þó enn milli starfsfólks og atvinnurekanda ef vinnsla hefst að nýju eftir boðaða vinnslustöðvun. „Ef vinnsla hefst að nýju er atvinnurekandinn skuldbundinn til að taka við sama fólki aftur til vinnu, því hefur í raun ekki verið sagt upp. En ef starfsfólk finnur aðra vinnu eftir að vinnslustöðvun hefur verið boðuð getur það tilkynnt atvinnurekanda það með stuttum fyrirvara,“ segir hann.

Vignir segir sjaldgæft að grípa þurfi til þessa ákvæðis um vinnslustöðvun og vonast til að starfsfólk geti snúið aftur til vinnu sem fyrst. „Þetta er slæm staða fyrir verkafólk. Það er ekki beint hálaunastarf að vera verkamaður í fiskvinnslu, en ekki jafn lélegt og atvinnuleysisbætur. Ég vona að þeir komst af stað fljótlega,“ segir Vignir Smári að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir