Skjámynd af upptöku frá daglegum upplýsingafundi almannavarna vegna Covid-19 í dag.

Búast má við hertum aðgerðum vegna fjölgunar covidsmitaðra

Sautján ný tilfelli Covid-19 voru greind á landinu í dag. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á daglegum upplýsingafundi almannavarna, sem var að ljúka, er veiran nú á svipuðum stað og hún var í vetur, veldisvöxtur er hafinn að nýju. Því megi búast við ákvörðun um enn hertar aðgerðir að nýju jafnvel strax um eða eftir helgi. Helgin mun einfaldlega skera úr um hvernig framhaldið verður og hve hratt verður farið í að mæla með hertari aðgerðum. Nú er veiran búin að grafa um sig víða í samfélaginu og stingur upp kollinum hér og hvar. Erfitt sé því að stoppa útbreiðsluna. Sagði hann baráttuna við veiruna verða lengri og öðruvísi en í vetur og vor, en aðferðirnar þær sömu. „Okkur bíður það verkefni að fá alla til liðs við okkur,“ sagði Þórólfur. Víðir Reynisson sagði á upplýsingafundinum að fjölgun tilfella af veirunni sé þungbær og líkur á að mjög veikum einstaklingum muni fjölga. Hann hefur þó fulla trú á að með góðri samstöðu sé hægt að sigrast á þessum vágesti.

„Það er engin ástæða til annars en að ætla að við náum tökum á þessum faraldri,“ sagði Þórólfur. Hins vegar gæti þurft að herða takmarkanir og lykilatriði væri að fólk fari eftir reglum og hugi að sóttvörnum.

Á upplýsingafundinum var spurt út í breytingar á ýmissi starfsemi sem verður að fara fram í haust; upphaf skólastarfs og göngur og réttir til sveita, svo dæmi séu tekin. Fram kom að horft verði til breytst fyrirkomulags í göngum og réttum í haust sem mun skýrast á næstu dögum og vikum. Hugsanlega verði að takmarka fjölda fólks í réttir svo dæmi séu tekin. Menntamálaráðuneytið mun gefa út reglur um skólastarf á öllum skólastigum í haust og mun það skýrast á næstu dögum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir