Þyrping húsa listasafnsins í Bæjargili á Húsafelli. Frá vinstri er turninn, gamla fjósið, pakkhúsið og lengst til hægri er legsteinasafnið sem nú hefur verið óskað eftir leyfi til niðurrifs til að fullnusta dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 14. júlí síðastliðnum. Ljósm. mm.

Páll sækir um leyfi til að rífa nýlegt legsteinahús í Húsafelli

Páll Guðmundsson, listamaður á Húsafelli, sótti 3. ágúst síðastliðinn um leyfi til sveitarfélagsins Borgarbyggðar til að fá að rífa nýlegt steinsteypt legsteinahús sem stendur á spildunni Bæjargili í Húsafelli. Eins og kunnugt er höfðaði Sæmundur Ásgeirsson, þinglýstur eigandi Gamla bæjarins á Húsafelli I, mál gegn Páli fyrir héraðsdómi þar sem hann krafðist þess að legsteinahús, ásamt gömlu pakkhúsi sem flutt hafði verið á spilduna Bæjargil, skyldi fjarlægt. Héraðsdómur Vesturlands kvað 14. júlí síðastliðinn upp úrskurð þess efnis að legsteinahúsið hefði ekki verið byggt samkvæmt gildu deiliskipulagi og skyldi því fjarlægt af lóðinni innan tveggja mánaða frá uppkvaðningu dómsins. Páll hafði í tvígang fengið útgefið byggingarleyfi frá Borgarbyggð vegna hússins en dómurinn leit þannig á að byggingarleyfi hefði ekki lögformlegt gildi það sem það byggði á skipulagi sem hefði ekki verið afgreitt með lögformlegum hætti. Í héraðsdómi var Páll hins vegar sýknaður af kröfu Sæmundar um að þurfa að fjarlægja gamla pakkhúsið. Páll hefur nú ákveðið að áfrýja ekki dómi héraðsdóms til æðra dómsstigs. Samkvæmt heimildum Skessuhorns vill hann ekki láta á það reyna enda segir í dómi héraðdóms að hann skuli greiða Sæmundi 40 þúsund krónur í dagsektir ef húsið verður enn uppistandandi 14. september næstkomandi.

Samkvæmt heimildum Skessuhorns er nú komin upp óvissa um framtíð sjálfseignarstofnunarinnar Gömlu sporanna, en markmið hennar hefur verið að varðveita listaverk Páls Guðmundssonar, sögu Húsafells og gömlu legsteinasmiðanna. Páll hugðist arfleiða félagið að verkum sínum og öðrum eignum til að treysta grundvöll þess. Í þeirri deilu sem komin er upp milli nágranna var í síðustu viku haldinn sáttafundur undir handleiðslu séra Geirs Waage sóknarprests þar sem auk Geirs sátu Páll Guðmundsson og Sæmundur Ásgeirsson. Sá fundur skilaði samkvæmt heimildum Skessuhorns engum árangri.

Í bréfi sínu til byggingarfulltrúa og sveitarstjórnar Borgarbyggðar segir Páll meðal annars um tilurð þess að hann sækir um niðurrif á legsteinahúsinu: „Undirritaður hefur byggt umrætt mannvirki upp með gilt byggingarleyfi útgefið af byggingarfulltrúanum í Borgarbyggð. Í tvígang hefur byggingarleyfið verið fellt úr gildi af úrskurðarnefnd auðlindamála en Borgarbyggð hefur ekki tekið til afgreiðslu þriðju umsókn undirritaðs um byggingarleyfi fyrir umrætt mannvirki. Umsókn undirritaðs var tekin fyrir hinn 11. júlí sl. án þess að það hefði fengið afgreiðslu. Það hefði skipt sköpum fyrir undirritaðan ef umsóknin hefði verið tekin til afgreiðslu og samþykkt áður en dómur féll.“

Þá segir Páll í bréfi sínu að þrátt fyrir vitneskju sveitarstjórnar Borgarbyggðar um niðurstöðu dómsins hafi enn engin viðbrögð borist honum um afgreiðslu tilvitnaðrar umsóknar hans um byggingarleyfi fyrir umrætt mannvirki. Bendir hann á að yrði umsóknin samþykkt fengi mannvirkið lagalega stöðu og koma mætti í veg fyrir fjarlægja þyrfti húsið. Páll bætir við: „Minnt skal á að undirritaður væri ekki í þessari stöðu ef stjórnsýsluleg meðferð Borgarbyggðar á deiliskipulagi Bæjargils hefði staðist formkröfur.“

Að endingu skrifar Páll í bréfi sínu til sveitarstjórnar: „Þar sem undirritaður hefur einungis tvo mánuði til að verða við dóminum er undirrituðum nauðugur kostur einn að sækja um byggingarleyfi til niðurrifs á mannvirkinu. Undirbúningur að niðurrifinu er langt kominn og nauðsynlegt að umsókn undirritaðs fái afgreiðslu svo unnt verði að fullnusta dóminum fyrir 14. september nk. Að verki loknu mun undirritaður óska eftir skriflegri staðfestingu byggingafulltrúa á því að mannvirkið hafi verið fjarlægt og dóminum því fullnustað.“

Uppfært: Leiðrétt

Föstudagur 7. ágúst: Í frétt þessari í gær sagði að fundur hafi verið ráðgerður í skipulags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar í dag, föstudaginn 7. ágúst. Það reyndist ekki rétt, því fundurinn er á dagskrá mánudaginn 10. ágúst. Ritstjóri biðst velvirðingar á því að nefndur var rangur fundartími.

Líkar þetta

Fleiri fréttir