Plan-B í Borgarnesi með breyttu sniði vegna COVID-19

Listahátíðin Plan-B Art Festival, sem fram fer árlega í Borgarnesi, verður dagana 7. –9. ágúst n.k. en með breyttu sniði að sögn skipuleggjenda. „Frá fyrsta degi hefur Plan-B lagað sig að óhefðbundnum aðstæðum, við höfum til dæmis sýnt list í gömlu sláturhúsi, í heimahúsum og íþróttamiðstöðinni og smeygt listinni inn hér og þar í Borgarnesi. Nú er einfaldlega komin upp ný staða vegna COVID-19 smita og við tökum sem fyrr plan b á þetta,“ segir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.

„Í stað hefðbundinna sýninga og opnana gefst gestum hátíðarinnar tækifæri til að skoða list í gluggasýningu og njóta listar utandyra í öruggri fjarlægð frá öðrum og líka að horfa á streymi vídeólistaverka og gjörninga á netinu.“

Í ár fer hátíðin fram í fimmta sinn og tekur 21 listamaður þátt með fjölbreyttum verkum. „Í ár eru mjög spennandi verk, allt frá keramíkskúlptúrum til dansverka til símaappa og við vildum alls ekki slaufa hátíðinni fyrst það var hægt að fara í plan b. Það verður kannski ekki eiginleg hátíð í ár því við vildum gæta ítrustu varúðar en okkur fannst vanta list á þessum síðustu og verstu.“

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðu hátíðarinnar, www.planbartfestival.is og á samfélagsmiðlum hátíðarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir