Gestir aldrei verið fleiri á Geitfjársetrinu Háafelli

Það var ys og þys á bæjarhlaðinu á Háafelli í Hvítársíðu þegar blaðamann Skessuhorns bar þar að garði um miðja síðustu viku. Gestir þennan dag voru að stórum hluta íslenskt barnafólk, en erlendu ferðafólki, einkum frá Þýskalandi og Norðurlöndunum, fer þó fjölgandi að sögn Þorbjarnar Oddssonar bónda. Hann segir að þetta ár muni metfjöldi heimsækja geitfjársetrið. Í afgreiðslunni tjáir Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir gestum að fyrirkomulagið sé með þeim hætti að byrjað er að heimsækja geiturnar úti á túni og heima við gömlu útihúsin með leiðsögn og fræðslu. Þar má rölta um og klappa geitunum og starfsmenn búsins svara fúslega spurningum sem vakna. Börn jafnt sem fullorðnir þurfa að spyrja margs og því er nauðsynlegt að hafa lifandi leiðsögn. Geiturnar sem valdar eru sem gestgjafar eru þessar spöku í stofninum sem hafa ekkert á móti því að heilsað sé upp á þær, spjallað og uppskera þær í staðinn klór undir hökunni og klapp á bakið. Annar hópur geita er svo í girðingu austan við bæjarhúsin og eru reknar til mjalta á hverjum degi. Eftir að gestir hafa varið þeim tíma sem hentar með geitunum er svo komið við í þjónustuhúsinu þar sem heimsóknargjaldið er gert upp og gestir taka handþvott og spritta rækilega hendur.

Úr geitamjólkinni eru unnar ýmsar spennandi afurðir á borð við osta og ís, kjötið er unnið í pylsur, kæfu og aðra rétti og sömu sögu má segja af ullinni og þá eru stökurnar (skinnin) sútaðar. Allt er nýtt sem af skepnunni kemur. Í þjónustuhúsinu er boðið upp á smakk af fjölbreyttum geitaafurðum; ostum, pylsum, ís og fjölmörgu fleiru, svo sem heimagerðum sápum, sultum og minjagripum. Þá eru geitatólgarkrem ein besta söluvaran þar sem þau eru afar græðandi. Veitingastaðurinn Krauma við Deildartunguhver leggur áherslu á sölu geitaplatta á matseðli sínum, en mjólkina vinna bændur á Háafelli á tveimur stöðum. Ostagerðin fer fram á Rjómabúinu á Erpsstöðum í Dölum, en ábúendur á Háafelli fá aðstöðu til að vinna ís úr geitamjólk í Holtseli í Eyjafjarðarsveit.

Óhætt er að segja að Jóhanna bóndi á Háafelli hafi lyft grettistaki á síðustu árum til að koma í veg fyrir að íslenski geitastofninn dæi út. Með ötulli baráttu sinni aflaði hún stuðnings hins opinbera fyrir að stofninum, sem hér hefur lifað allt frá landnámi, yrði við haldið. Geitastofninn er nú í vexti þrátt fyrir að vera enn skilgreindur sem stofn í útrýmingarhættu.

Við leyfum myndum frá Háafelli að tala sínu máli og hvetjum fólk til að gera sér ferð heim að Háafelli. Þangað er í senn skemmtilegt og fróðlegt að koma en með heimsókn er sömuleiðis stuðlað að því að íslenski geitastofninn verði áfram til líkt og fyrir 1100 árum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir