Sjö af 24 einstaklingum með Covid-19 eru á Akranesi

Nú eru 24 staðfest smit af Covid-19 í landinu og þar af eru sjö á Akranesi. Þeir tengjast allir sama hópi austur-evrópsks starfsmannahóps. Tveir þeirra komu nýlega til landsins en reyndust neikvæðir við skimun á landamærum, en fóru ekki í síðari skimun eins og reglur kveða á um. Fjöldi þeirra sem eru í sóttkví á landinu vegna Covid-19 fór í morgun úr 173 í 201 á tveimur tímum. Sýna þær tölur glöggt að allir landsmenn þurfi að vera á varðbergi vegna veirunnar og gæta að smitvörnum.

Vegna þessa hópsmits á Akranesi var í morgun haldinn fundur í aðgerðastjórn Almannavarna á Vesturlandi undir stjórn Úlfars Lúðvíkssonar lögreglustjóra. Þórir Bergmundsson framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Vesturlands situr í aðgerðastjórninni. „Á fundinum í morgun var farið yfir stöðuna varðandi nýuppkomna hópsýkingu á Akranesi. Nú eru sjö einstaklingar í einangrun á Akranesi með staðfest smit veirunnar. Eitt staðfest smit sem tengist þessum sama hópi er auk þess í Reykjavík,“ segir Þórir í samtali við Skessuhorn. Hann segir að nokkrum hópi fólks sem tengist sömu einstaklingum hafi verið gert að sæta sóttkví. Smitrakningu er ekki lokið en unnið markvisst að því. Þórir segist binda vonir við að tekist hafi að ná til allra þeirra sem fyrrgreindir einstaklingar hafi umgengist og því sé ekki teljandi hætta á frekara smiti vegna þeirra. Eitt sýni var tekið á Akranesi í gær úr einstaklingi sem mögulega hafði haft snertingu við hópinn, en það reyndist neikvætt.

„Þeir sem hafa greinst hér á Akranesi tilheyra allir afmörkuðum hópi sem býr hér og starfar en kemur frá Eystrasaltsríkjunum. Í ljós kom að einn úr hópnum, sem hefði átt að fara í sýnantöku við komu til landsins, gerði það ekki. Við komu til landsins á síðari skimun að ná til allra íslenskra ríkisborgara og þeirra sem búa hér og starfa. Viðkomandi einstaklingur starfar hér á landi og er með íslenska kennitölu. Þarna varð því brestur í eftirlitskerfinu en búið er nú að girða fyrir þann leka,“ segir Þórir. Aðspurður segir hann ekki vitað um smit út fyrir þennan tiltekna hóp. „Þetta hópsmit tengist allt fólki af erlendu bergi, sem starfar saman, en hefur eðli málsins samkvæmt umgengist fleiri. Þeir fara nú allir í sóttkví,“ segir Þórir.

Ráðstafanir á HVE

Samhliða hópsmiti hefur HVE á Akranesi ákveðið að húsinu verði lokað. „Við gerðum tilslökun í maí og höfum síðan haft opið á HVE frá kl. 8-16. Nú hverfum við tímabundið frá þeirri ráðstöfun og verður stofnuninni læst. Starfsemi í afgreiðslu verður óbreytt og hægt að nálgast heilbrigðisþjónustu símleiðis. Móttaka verður því eins og áður fyrir þá sem panta tíma. Fólk hringir þá dyrasíma þegar það mætir á umsömdum tíma til læknis.“ Þá segir Þórir að tekin hafi verið aftur upp takmörkun á heimsóknum til inniliggjandi sjúklinga á HVE á Akranesi, þangað til annað verður ákveðið. „Að sjálfsögðu verða þó gerðar undantekningar á heimsóknarbanni þegar þannig ber við, en þá í samráði við starfsfólk viðkomandi deildar.“

Tökum á þessu saman!

Lögreglan á Vesturlandi hvetur fólk til að gæta að eigin smitvörnum, nú sem aldrei fyrr, en bersýnilegt er að margir virðast kærulausir að þessu leyti. „Lögreglan hér á Vesturlandi sendir út þau skilaboð til einstaklinga og fyrirtækja að herða allar sóttvarnir. Fylgjum fyrirmælum sóttvarnalæknis sem hefur frá upphafi hamrað á að fólk virði tveggja metra regluna, þvoi sér reglulega um hendur og noti handspritt. Tökum á þessu saman, við erum öll almannavarnir,“ segir lögreglan.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

75 smit í gær

Alls greindust 75 ný innanlandssmit kórónuveirunnar í gær, skv. uppfærðum tölum á covid.is. Af þeim voru 28 utan sóttkvíar við... Lesa meira

Endurnýja búningsklefa

Tilboð voru opnuð í endurnýjun búningsklefa íþróttahússins á Jaðarsbökkum á Akranesi 13. október síðastliðinn. Kostnaðaráætlun verksins hljóðaði upp á rúmar... Lesa meira